131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[16:08]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er athyglisvert hvernig talsmenn Sjálfstæðisflokksins forðast við þessa umræðu eins og köttur heitan graut að koma að kjarna þessa máls. Kjarni málsins er þessi: Það eru ekki viðskiptalegar forsendur fyrir kaupum Landssímans á Skjá einum. Það hefur komið fram hjá sérfræðingum og í þessari umræðu hefur ekkert komið fram af hálfu talsmanna Sjálfstæðisflokksins sem sýnir annað.

Hv. þm. Halldór Blöndal er látinn koma hingað til að tala um ADSL-kerfið og hv. þm. Gunnar Birgisson er látinn koma hingað til að ráðast á framsóknarmanninn Alfreð Þorsteinsson og tala um Línu.Net. Það er málflutningurinn. En þeir koma ekki að kjarna málsins. Hver eru rökin fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn er að hverfa frá 15 ára gamalli stefnu sinni um að selja ríkisfyrirtæki og er í reynd farinn að taka upp ríkisvæðingu einkafyrirtækja? Um það snýst málið.

Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði að umræðan færi í hringi. Hv. þm. tók til máls í fjölmiðlum og sagðist hissa. Í þessari umræðu er hann ekki hissa heldur ver hann kaupin. Hver fer í hringi, herra forseti?

Þá er meiri bragur á hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur sem kom hingað og var krítísk á þetta. Hún kom að einu mikilsverðu atriði málsins sem ég er sammála, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur bent á. Væri ekki betra fyrir landsmenn og sérstaklega þá sem búa úti á landsbyggðinni að einokunargróðanum sem Síminn er að beita til þess að fara í hin vafasömu kaup á Skjá einum hefði verið veitt til að bæta gagnaflutningakerfið og stoppa í GSM-götin. Að sjálfsögðu hefði það verið betra og um það erum við sammála. (Gripið fram í: Það er verið að bæta gagnaflutningakerfið.)

Hæstv. fjármálaráðherra kom hingað og sagði: Ég get ekki fremur en aðrir upplýst um verðið á Landssímanum. Hann hefur vopnin. Hann getur boðað til hluthafafundar. Þá er hægt að upplýsa um hinar viðskiptalegu forsendur og hvað ævintýrið kostar. Hvernig má það vera, herra forseti, að ekki sé hægt að upplýsa um hvað þetta kostar?