131. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2004.

Kaup Landssímans í Skjá einum.

[16:11]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það var spurt að því áðan í tvígang hvort ríkisstjórnin væri fallin frá stefnu sinni varðandi fjölmiðla í landinu. Hv. fyrirspyrjandi, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, spurði að því. Svarið er: Auðvitað ekki. Það hefur ekkert verið gert. Það er búið að endurskipa nefnd til að vinna í því máli en Síminn, eins og önnur fyrirtæki, starfar á grundvelli þeirra laga sem gilda hverju sinni. Á hann að starfa á grundvelli laga sem felld voru úr gildi? Er það krafa þingmannsins?

Skrípaleikur, hv. þm. ... (ÖS : Hafið þið ekki stefnu?) Það kemur þessu máli ekki við, það varðar stjórnendur fyrirtækisins. Það eru stjórnendur fyrirtækisins sem taka ákvarðanir og nú er þingmanninum vel skemmt. Hann er orðinn alger fylgihnöttur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli og mikil er niðurlæging Samfylkingarinnar að verða slíkur fylgihnöttur VG hvað varðar sölu Símans. Það er niðurlægjandi.

Hv. þm. vill ekki heyra svörin við spurningunum sem hann bar fram sjálfur. Hann vill það ekki vegna þess að honum líkar þau ekki, vegna þess að honum líkar ekki sannleikurinn í þessu máli.

Viðskiptalegar forsendur liggja að baki fjárfestingum Símans. Ég treysti stjórnendum hans betur til að leggja mat á það heldur en hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Þið verðið bara að fyrirgefa, ég treysti þeim betur til þess. Það er auðvitað kjarni málsins. Til þessa hafa þessir menn verið valdir, til þess er stjórnin valin á aðalfundi og hún velur síðan stjórnendur fyrirtækisins til að taka slíkar ákvarðanir. Þannig mun það verða.

Aðalatriðið er að losa Símann úr þeim viðjum sem þetta fyrirkomulag bindur fyrirtækið í (Gripið fram í.) og koma honum úr 99% eigu ríkisins yfir í eigu alls almennings. Það er auðvitað nærtækast og það væri mikil lágkúra Samfylkingarinnar að bregðast þeim málstað, ef það er að gerast hér.