131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[10:35]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Öldum saman var meginhluti jarða í eigu fárra stóreignamanna, kóngsins og biskupsstólanna. Frumkvöðlar sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld töldu brýnt fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og framfarir í landbúnaði að bændur ættu jarðirnar. Sjálfseignarbóndinn var þar í lykilhlutverki.

Með svokölluðum ábúðarlögum var þessari stefnu fylgt eftir þannig að þeir sem höfðu jarðirnar á leigu fengu á þeim lífstíðarábúðarrétt sem setti þá nánast að fullu upp að hlið sjálfseignarbóndans. Fjölskyldubúin voru grunneining í landbúnaði. Þetta hefur reynst þjóðinni farsælt og um þessa stefnu hefur ríkt sátt til þessa.

Stuðningur hins opinbera við landbúnað hefur annars vegar miðast við að rækta og bæta hin náttúrulegu gæði landsins til framtíðar og hins vegar að tryggja neytendum framleiðslu hollrar og góðrar vöru á hagstæðu verði. Með dreifðri búsetu skapast forsendur fyrir því að gæði landsins séu vernduð og nýtt á sjálfbæran hátt. Sú sjálfsagða krafa við landnýtingu og matvöruframleiðslu er nær okkur en margur heldur. En þessi stefna krefst þess að bændurnir, landeigendurnir, sitji jarðirnar og myndi samfélag þar sem að hver styður annan. Þeir búvörusamningar sem ríkið hefur gert við bændur hafa byggt á því að þeirri grunnhugsun sé fylgt.

Núverandi landbúnaðarráðherra hefur ítrekað lagt áherslu á stöðu sjálfseignarbóndans og fjölskyldubúa sem grunneiningu og að meðferð landgæða og búvöruframleiðslan lúti kröfum um sjálfbæra þróun. Sérlög um landbúnað þurfa fyrst og fremst að lúta að hagsmunum byggðanna og hagsmunum þeirra sem vilja búa í sveit og stunda þar sinn atvinnuveg.

Síðastliðið vor voru gerðar veigamiklar breytingar á jarðalögum og ábúðarlögum. Sumar voru eðlilegar en aðrar stuðluðu því miður að því að veikja stöðu sjálfseignarbóndans og fjölskyldubúsins sem grunneiningar. Í stað þess að skerpa á og skýra forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum var hann afnuminn. Í stað þess að skilgreina samfélagslegar kvaðir á landeigendur var frjálsræði í ráðstöfun og meðferð lands aukin. Réttur ábúanda á leigujörðum var skertur verulega. Innlausnarréttur ábúanda gagnvart sameigendum sínum var afnuminn. Aðkoma sveitarfélaganna að meðför og ráðstöfun lands til landbúnaðarnota var skert verulega, þvert á markmið laganna sem getið var að framan.

Ég varaði við þessum flausturslegu breytingum. Frekar hefði þurft að skýra og styrkja samfélagskvaðir sem leggja verður á þá sem fara með forsjá lands og búvöruframleiðslu. Nú vakna menn upp við vondan draum. Fjársterkir einstaklingar, félög og fyrirtæki, kaupa í stórum stíl upp bújarðir, jafnvel í fullum rekstri. Þeir flytja framleiðsluréttinn milli jarða en setja aðrar í eyði. Sjálfseignarbóndinn, fjölskyldubúið, er ekki lengur grunneining heldur réttlitlir leiguliðar stóreignamanna.

Í Ríkisútvarpinu 14. október síðastliðinn var haft eftir Ólöfu Hallgrímsdóttur, formanni Félags kúabænda í Suður-Þingeyjarsýslu, að það sé afturhvarf til fortíðar að bændur verði leiguliðar auðmanna. Talið er að jarðir í höndum sama lögaðila geti skipt tugum nú þegar. Vissulega hafa verið keyptar jarðir sem fallið hafa úr ábúð en það hafa gjarnan verið jaðarbyggðir og ekki um raðuppkaup að ræða. Stuðningur við landbúnaðinn í formi beingreiðslna, sem ætlaður var til að tryggja búsetu dreifðra byggða og heilnæma framleiðslu, er notaður til hins gagnstæða, til að fjármagna skipulögð uppkaup á jörðum.

Gangi þessi þróun eftir er verið að rústa búsetu og framleiðslumunstri sem löggjafinn hefur orðið ásáttur um og taldi sig stuðla að. Forsendur núgildandi búvörusamninga, bæði í mjólk- og sauðfjárafurðum, hljóta að vera í uppnámi. Sveitarfélögin, heilu byggðarlögin, standa agndofa og varnarlaus gagnvart því sem er að gerast.

Ég leyfi mér því að beina eftirtöldum spurningum til hæstv. landbúnaðarráðherra:

Er ríkisstjórnin sátt við, ef fram fer sem nú horfir, að jarðir og framleiðsluréttur í landbúnaði færist á fárra manna hendur og bændur verði gerðir að réttlitlum leiguliðum?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir lagasetningu eða grípa til annarra aðgerða sem hindra uppkaup einstaklinga og fyrirtækja á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar?

Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir setningu laga eða tryggja með öðrum hætti búsetuskyldu á jörðum, aukinn rétt leiguliða, stöðu sjálfseignarbænda og fjölskyldubúskapar sem grunneiningar í landbúnaði?

Að lokum: Hvernig er löggjöf háttað í nágrannalöndum hvað varðar kröfur um eignarhald, búsetuskyldu og meðferð framleiðsluréttar á jörðum í samanburði við íslensk lög?

Herra forseti. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða og ég vænti þess að hæstv. ráðherra gefi góð svör.