131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[10:51]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er tímabært held ég að velta fyrir sér þeirri meginstefnu sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir á undanförnum árum. Hvert hefur verið meginmarkmið ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks? Það hefur verið að binda atvinnufrelsi einstaklinga í ýmsum atvinnugreinum til sjávar og sveita, hefta atvinnufrelsi manna með því að setja upp hin svokölluðu framseljanlegu kvótakerfi til sjávar og sveita.

Margsinnis hefur verið bent á það, m.a. í skýrslum frá Byggðastofnun, til hvers slíkt mundi leiða. Það mundi fækka hinum sjálfstæðu atvinnurekendum. Það mundi fækka hinum sjálfstætt starfandi mönnum, þetta ylli samþjöppun og yki vald og eignir fárra. Sú hefur þróunin verið. Það er afleiðing af stjórnarstefnunni og það sem er að ske núna í sveitunum er nákvæmlega það sem við ræddum hér, að mig minnir í lok mars, þegar tekin var umræðan um ábúðarlögin og jarðalögin. Sá sem hér stendur varaði þá m.a. við því hvert væri stefnt með því að gefa sveitarstjórnum engan ígripsrétt um það hvernig jörðum yrði ráðstafað. Þó að það kunni vel að vera eðlilegt að eignamenn eignist eina og eina jörð í sveitum — og vonandi að þeir búi þá þar — er ekki eðlilegt að eignamenn safni til sín jörðum. Það var akkúrat það sem ég varaði við í umræðunni í vor, að það væri óeðlilegt að sveitarstjórnir hefðu ekki nein áhrif á það hvernig ætti að nýta jarðir sem eru undirstaða atvinnu og byggðar í hinum dreifðu byggðum.