131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[10:55]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er rætt hefur eðlilega á sér margar hliðar, tengist m.a. þróun landbúnaðar síðustu árin, aukinni fjölbreytni, tækniþróun og fleiru. Eðlilega vakna líka upp ýmsar spurningar þegar þetta mál er rætt, t.d. þær hvort setja eigi hömlur við því að bændur og landeigendur geti selt jarðir sínar og losað þar með fjármagn sem þeir hafa skapað í jarðaverði með framlagi ævistarfs síns.

Miðað við umræðuna í dag vaknar upp spurningin hvort menn vilji að ríkið leysi til sín jarðir á einhverju matsverði, eða sveitarfélög jafnvel — og síðan hvað? Það er ýmislegt sem kemur upp í þessari umræðu en staðreyndin er sú að sveitirnar heilla marga. Margir vilja búa þar eða hafa einhvers konar athvarf og það er að mörgu leyti mjög jákvætt fyrir sveitir landsins. Það er ekkert nýtt í sögunni að ýmsir aðilar kaupi upp jarðir, jafnvel fleiri en eina og fleiri en tvær.

Nýir eigendur jarða taka gjarnan til hendi, leggja fjármagn í að lagfæra og byggja þær upp, vilja koma upp starfsemi og búskap sem er yfirleitt annars konar en hinn hefðbundni. Það eru mörg jákvæð dæmi um að fjársterkir aðilar kaupi upp bújarðir, flytji jafnvel heimilisfesti eða lögheimili fjölskyldu sinnar, skapi þannig fámennum sveitarfélögum auknar tekjur, taki þátt í mannlífi og félagslífi o.s.frv. Hins vegar má auðvitað velta því fyrir sér, og ég tel eðlilegt að það sé rætt, hvort framleiðendur t.d. mjólkur eigi ekki jafnframt að vera ábúendur jarða sem eigendur þeirra þar sem mjólkurframleiðslan fer fram. Mér finnst mjög eðlilegt að það mál sé rætt. Búeiningarnar í hefðbundnum búgreinum hafa þó verið að stækka og þurfa að gera það að mati flestra, m.a. til að styrkja rekstrargrundvöllinn, og það sem við ræðum í dag er auðvitað einn anginn af því máli.