131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Uppkaup á bújörðum og samþjöppun framleiðsluréttar.

[11:06]

Dagný Jónsdóttir (F):

Herra forseti. Áður en ný jarða- og ábúðarlög tóku gildi var þó nokkur skriður kominn á þá þróun að fjárfestar væru að fjárfesta í bújörðum, í sumum tilfellum jarðir í fullum rekstri og í sumum ekki. Framkvæmdin er sú að starfskraftur hefur umsjón með daglegum rekstri þó að fjárfestirinn sé hinn eiginlegi framleiðandi afurða og handhafi beingreiðslna. Oftast er þetta gert þannig að hlutafélag kaupir bújörð og gerir síðan samning við undirverktaka um rekstur búsins eða jarðarinnar. Verktakinn gerir svo reikning fyrir vinnu sinni og útlögðum kostnaði við rekstur jarðarinnar.

Með þessari aðferð er eitthvað um að einstakir lögaðilar hafi eignast fleiri en eina jörð og haft í búrekstri. Ég vil í því sambandi benda á að t.d. í dönsku lögunum er rík byggingarskylda og eigandi er skyldugur til að hafa fasta búsetu á einni þeirra jarða sem reknar eru saman í minnst átta ár eftir kaup. Þá eru takmörk fyrir því hvað hver einstakur aðili má eiga margar jarðir og reka saman. Þá eru einnig takmörk fyrir því hve marga hektara jarðareigandi má reka eða hafa á leigu til búrekstrar í dönsku lögunum. Einnig eru kvaðir um að viðkomandi hafi tiltekna lágmarksbúfræðimenntun.

Herra forseti. Mér finnst að við eigum að skoða þá þróun sem hér á sér stað og reyna að vega og meta hugsanlegar ógnanir sem í því kann að leynast fyrir íslenskan landbúnað svo og hugsanleg tækifæri til frekari tekjuaukningar fyrir sveitir landsins.

Við skulum ekki gleyma því að nýju fólki fylgja oft nýjar hugmyndir og ný sýn sem í kunna að leynast tækifæri fyrir samfélagið í sveitum landsins.