131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005.

216. mál
[11:13]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt Alþingi skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar vegna ársins 2002 í samræmi við 13. gr. laga um stofnunina. Jafnhliða geri ég grein fyrir framvindu byggðaáætlunar eins og sama lagagrein gerir ráð fyrir. Skrifleg skýrsla um framvinduna hefur verið lögð fyrir Alþingi.

Hlutverk Byggðastofnunar eins og það er skilgreint í lögum er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Í samræmi við hlutverk sitt vinnur stofnunin m.a. að undirbúningi, skipulagi og fjármögnun verkefna og veitingu lána með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu. Byggðastofnun fylgist einnig með þróun byggðar í landinu og skipuleggur vinnu við atvinnuráðgjöf í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra svo nokkrir þættir úr starfsemi stofnunarinnar séu nefndir.

Starfsemi Byggðastofnunar skiptist í fjögur svið, fyrirtækjasvið, lögfræðisvið, rekstrarsvið og þróunarsvið.

Segja má að starfsemi Byggðastofnunar hafi verið með nokkuð hefðbundnu sniði þegar á heildina er litið. Lokið er öllu umstangi sem leiddi af flutningi stofnunarinnar til Sauðárkróks og ró komin á starfsemina. Á síðasta ári var lögð mikil áhersla á innra starf stofnunarinnar. Hafa henni verið settar heildstæðar starfsreglur og þær gefnar út í formi handbókar fyrir stjórn og starfsfólk. Meginþættir handbókarinnar eru verklagsreglur fyrir útlána- og fjármálastarfsemi stofnunarinnar, reglur um störf stjórnar Byggðastofnunar, siðareglur fyrir stofnunina, starfsmannastefna auk þess sem fleira mætti nefna. Eru þessar reglur birtar með aðgengilegum hætti á heimasíðu stofnunarinnar, byggdastofnun.is. Starf þetta þarf eðli máls samkvæmt stöðugt að halda áfram en megintilgangur þess er að leitast við að tryggja góða stjórnsýslu í málefnalegu og gegnsæju starfi Byggðastofnunar. Þannig er nú skýr verkaskipting á milli stjórnar annars vegar og forstjóra, forstöðumanna og starfsmanna stofnunarinnar hins vegar og áhersla lögð á eftirlits- og stefnumótunarhlutverk stjórnar.

Ársfundur Byggðastofnunar 2003 var haldinn á Höfn í Hornafirði þann 13. júní og að honum loknum var haldið málþing um aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á landsbyggðinni að lánsfjármagni. Fundurinn var vel sóttur og umræður líflegar. Byggðastofnun fékk rúmlega 287 millj. kr. framlag úr ríkissjóði árið 2003. Ekki var um að ræða sérstök framlög úr ríkissjóði í afskriftareikning Byggðastofnunar á árinu. Alls greiddi stofnunin út á árinu 2003 ný lán að fjárhæð 1,7 milljarðar kr. en útgefin lánsloforð 2003 námu alls um 2,6 milljörðum kr.

Á árinu 2003 þurfti stofnunin að afskrifa endanlega veitt lán að fjárhæð alls 606 millj. kr. Að langstærstu leyti er þar um að ræða útlán frá árinu 1998 til og með 2000 og því ljóst að á því árabili hefur verið tekin mikil áhætta í útlánum stofnunarinnar. Á árinu 2002–2003 hefur verið mikið tap af reglulegri starfsemi stofnunarinnar, mest um 480 millj. kr. árið 2002. Tap þetta er allt tilkomið vegna þeirra útlánatapa sem stofnunin hefur orðið fyrir. Hefur þetta leitt til þess að eiginfjárhlutfall stofnunarinnar samkvæmt reglum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, hefur enn lækkað og nam í árslok 2003 10,85%. Þess má til samanburðar geta að í árslok 2001 nam eiginfjárhlutfall stofnunarinnar 16,45%.

Niðurstaða efnahagsreiknings Byggðastofnunar var rétt rúmlega 15 milljarðar kr. um síðustu áramót og hafði hækkað um rúm 12% á árinu. Lífeyrisskuldbindingar voru 501 millj. kr. í ársbyrjun en 572 millj. kr. í árslok. Eigið fé í árslok var 1 milljarður 699 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi og stóð nánast í stað frá fyrra ári. Mikið útlánatap hefur haft í för með sér að stofnunin hefur orðið að leysa til sín mikið af fasteignum víðs vegar um landið og eru nú í eigu stofnunarinnar fullnustueignir sem bókfærðar eru hátt í 600 millj. kr.

Framlög Byggðastofnunar til atvinnuþróunarfélaga námu alls 115 millj. kr. á árinu og hafa hækkað um 8 millj. kr. frá fyrra ári. Styrkveitingar Byggðastofnunar hafa dregist saman á undaförnum árum og voru um 27 millj. kr. árið 2003. Þá hefur einnig dregið mjög úr hefðbundnum hlutafjárframlögum til fyrirtækja á starfsævi stofnunarinnar.

Undanfarna mánuði hefur í ört vaxandi mæli borið á uppgreiðslum á útlánum Byggðastofnunar. Veruleg vaxtalækkun hefur undanfarna mánuði orðið á langtímalánum á íslenskum lánamarkaði. Mikil samkeppni viðskiptabankanna hefur leitt til þess að fjölmörgum úr hópi viðskiptavina Byggðastofnunar bjóðast nú betri vaxtakjör en stofnunin getur boðið. Þannig má ætla að uppgreiðslur síðustu 12 mánaða nemi allt að 1,5 milljörðum kr. Þegar skoðað er hvaða lán hafa verið greidd upp kemur í ljós að þar er einkum um lán með öruggum tryggingum að ræða, einkum tryggð með veði í fiskiskipum og varanlegum veiðiheimildum og skuldarar sem reynst hafa öruggir greiðendur að lánum sínum. Þetta leiðir til þess að hreinar vaxtatekjur stofnunarinnar dragast stórlega saman, úr 441 millj. kr. árið 2003 en stefna í að vera kringum 250 millj. kr. í ár. Haldi sú þróun áfram mun stofnunin sitja eftir með mun veikara útlánasafn en áður og hætt er við að vanskil sem hlutfall af heildarútlánum muni aukast. Þó ber auðvitað að fagna auknum möguleikum fyrirtækja á landsbyggðinni að sækja aukið fjármagn.

Sérstaða Byggðastofnunar á lánamarkaði hefur jafnan verið sú að stofnunin hefur lögskilgreint starfssvæði og hlutverk. Hún veitir litlum og meðalstórum fyrirtækjum á starfssvæði sínu lán á almennt hagstæðari kjörum en viðskiptabankarnir, hún veitir lán til lengri tíma og gefur lántakendum lengri aðlögun fram að fyrsta gjalddaga. Þá er stofnunin þolinmóðari ef vanskil verða.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur átt sér stað umræða innan Byggðastofnunar um stöðu hennar og framtíðarhlutverk í breyttu viðskiptaumhverfi. Ljóst er að á undanförnum missirum hafa orðið miklar breytingar að því er varðar stoðkerfi atvinnulífs á landsbyggðinni þar sem fleiri aðilar og stofnanir koma nú að málum en áður. Þetta kallar á nýjar áherslur og ný vinnubrögð af hálfu Byggðastofnunar þar sem skýr framtíðarsýn er lykilatriði.

Byggðastofnun hefur með höndum erlent samstarf á sviði byggðamála og atvinnuþróunar. Forstöðumaður þróunarsviðs stofnunarinnar situr í sérfræðiráði Nordregio, sem er norræn rannsóknastofnun á sviði skipulags- og byggðamála, og í NÄRP, norrænu embættismannanefndinni um stefnu í byggðamálum. Byggðastofnun hefur auk þess faglegt samstarf við ýmsa erlenda háskóla og rannsóknastofnanir og umsjón með tveimur alþjóðlegum verkefnum á sviði byggðamála fyrir Íslands hönd. Þetta er annars vegar NORA, Norræna Atlantsnefndin, sem veitir styrki til samstarfsverkefna er tengjast þróun atvinnulífs, nýsköpun og rannsóknarstarfsemi á starfssvæði sínu og Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins, NPP, en Íslendingar gerðust aðilar að áætluninni á árinu 2002 eins og tillaga var gerð um í gildandi byggðaáætlun. Norðurslóðaáætluninni er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum sem miða að því að finna lausnir og/eða stunda rannsóknir á sameiginlegum viðfangsefnum norðurslóða.

Áhersluverkefni geta verið af þrennum toga:

1. Verkefni tengd samgöngu- og fjarskiptamálum.

2. Verkefni tengd atvinnuþróun og vistvænni nýtingu náttúruauðlinda.

3. Verkefni tengd eflingu samfélaga á norðurslóðum.

Það er gaman að segja frá því að íslenskir aðilar eru nú þegar þátttakendur í fjölmörgum verkefnum innan áætlunarinnar.

Næst mun ég að fara nokkrum orðum um framkvæmd byggðaáætlunar og fylgja þannig úr hlaði skriflegri skýrslu um framvinduna sem lögð hefur verið fyrir Alþingi.

Alþingi ályktaði þann 3. maí 2002 að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002–2005. Meginmarkmið áætlunarinnar skyldu verða eftirfarandi:

a. Að draga úr mismun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga í landinu og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.

b. Að aðstoða byggðarlög á landsbyggðinni við að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum með því að efla sveitarfélögin, veita markvissan stuðning við atvinnuþróun, menntun, trausta samfélagsþjónustu og uppbyggingu grunngerðar.

c. Að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu.

d. Að auðvelda byggðum landsins að rækta menningu sína, auðga með því þjóðlífið og skapa fjölbreytilegri kosti fyrir borgarana í búsetu og lífsstíl. Í því felst m.a. að stuðla að varðveislu byggðar sem á sér rótgróna sögu og hefur menningarsögulegt gildi, svo og að virða tengsl fólks í fámennum byggðarlögum við átthaga sína með því að gera því kleift að búa þar áfram.

e. Að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi, jöfnun starfsskilyrða og að fyrirtæki á landsbyggðinni geti nýtt atvinnukosti sína sem best með sjálfbæra nýtingu auðlinda og góða umgengni um náttúru landsins að leiðarljósi.

Aðgerðir til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunar byggjast á fimm meginstoðum sem eru traust og fjölbreytt atvinnulíf, öflug byggðarlög, aukin þekking og hæfni, bættar samgöngur og áhersla á sjálfbæra þróun. Samþykkt Alþingis fylgdu tillögur um 22 beinar aðgerðir til að ná fram meginmarkmiði byggðaáætlunarinnar. Aðgerðirnar eru ekki tæmandi og taka ekki til allra þeirra viðfangsefna sem stefnumarkandi áherslusvið tilgreind í byggðaáætluninni snerta. Til þess að tryggja sem best framgang gildandi byggðaáætlunar var bryddað upp á þeirri nýbreytni að fela tilteknum ráðuneytum og Byggðastofnun ábyrgð á framkvæmd framannefndra aðgerða. Auk þess var skipuð sérstök verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með framkvæmd byggðaáætlunarinnar. Þetta gerir framkvæmd áætlunarinnar markvissari og auðveldar eftirlit með henni.

Skemmst er frá því að segja að vinna er hafin við flestar aðgerðanna 22 eins og kemur skýrt fram í skýrslunni um framvindu byggðaáætlunar sem ég hef lagt fyrir þingið en þar er farið rækilega yfir framkvæmd hverrar aðgerðar um sig. Í skýrslunni er einnig vikið að ýmsum fleiri aðgerðum sem stjórnvöld hafa staðið að og miða í átt að meginmarkmiðum byggðaáætlunarinnar. Það er rétt að taka fram að þarna er vissulega ekki um tæmandi upptalningu að ræða.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja framkvæmd þessara aðgerða til hlítar hér en mig langar þó að fara yfir helstu atriði við framkvæmd byggðaáætlunarinnar og tæpa á örfáum aðgerðum sem eru ýmist komnar til framkvæmda eða í farvatninu. Ráðuneytið hefur lagt og mun áfram leggja mikið upp úr því að byggð í landinu þróist á grunni þekkingar og nýsköpunar. Þessi áhersla endurspeglast í aðgerðum ráðuneytisins.

Með byggingu raforkuvers við Kárahnjúka og samningum um byggingu álvers á Reyðarfirði er stigið eitt stærsta spor sem stigið hefur verið á síðari árum til að bæta lífskjör og afkomumöguleika fólks á Austfjörðum þaðan sem fólksflótti hefur verið hvað mestur á undanförnum árum. Framkvæmdin hefur þegar haft mjög mikil áhrif á atvinnuástandið og íbúaþróun á Austurlandi þó svo hún sé rétt farin af stað. Þá hefur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sérstakt 700 millj. kr. framlag til þess annars vegar að leggja fram hlutafé í sprotafyrirtæki og fyrirtæki í skýrum vexti og hins vegar að styðja rekstur vel mótaðra stuðningsverkefna til að styðja grunngerð nýsköpunar og atvinnuþróunar augljós áhrif til að bæta starfsskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni. Sérstakt átak sem ríkisstjórnin ákvað að ráðast í til að flýta samgöngubótum er til þess fallið að draga úr mismunun á lífskjörum fólks og bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja á landsbyggðinni. Hér er ástæða til að benda á að samkvæmt áliti Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Byggðarannsóknastofnunar Íslands eru samgöngubætur sú aðgerð sem best er til þess fallin að bæta afkomu og lífskjör íbúa landsbyggðarinnar.

Sérstök byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð hefur að markmiði að efla búsetu á Norðurlandi og hafin er vinna við byggðaáætlun fyrir Vestfirði, þar sem stefnt er að eflingu byggðar vestra. Uppbygging Háskólans á Akureyri og rannsóknarstarfs honum tengt hefur haft mjög mikil og jákvæð áhrif á byggðaþróun á Akureyri. Hið sama má segja um uppbyggingu framhaldsnáms víðs vegar um landið.

Samningar um byggingu menningarhúsa á landsbyggðinni munu gera almenningi auðveldara að rækta menningu sína og auðga þar með þjóðlífið.

Starf Impru, nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri, hefur verið eflt til muna. Fjárveitingar á fjárlögum til atvinnuþróunarfélaga hafa hækkað verulega milli áranna 2003–2004 eða úr rúmlega 101 millj. í rúmlega 119 millj. Með því hefur styrkari stoðum verið skotið undir það mikilvæga starf sem félögin vinna.

Mjög mikilvægt er að árangur náist í því sameiningarátaki sem nú er að fara af stað. Sameiningarnefnd sem félagsmálaráðherra skipaði hefur skilað fyrstu tillögum og er stefnt að því að kosið verði um sameiningu í apríl næstkomandi. Efling sveitarfélaganna í landinu er mjög brýnt verkefni þannig að unnt verði að fela þeim fleiri verkefni en nú er. Vilji sveitarfélögin vera gjaldgeng sem góður búsetuvalkostur verða þau að hafa þann íbúafjölda innan vébanda sinna að sveitarfélagið geti boðið upp á þá þjónustu sem krafa er gerð um í nútímasamfélagi.

Vaxtasamningur Eyjafjarðarsvæðisins var undirritaður í júlí 2004. Samningurinn er samkomulag einkaaðila og opinberra aðila þar sem sett eru markmið um uppbyggingu svæðisins í tilteknum vaxtargreinum með áherslu á hagvöxt og fyrirtækjaklasa. Stefnt er að því að mynda fjóra klasa en þeir eru mennta- og rannsóknarklasi, heilsuklasi, ferðaþjónustuklasi og matvælaklasi.

Verkefnisstjórn byggðaáætlunar fyrir Vestfirði hóf störf í október 2003 en í henni sitja fulltrúar byggðarlaga á Vestfjörðum. Verkefnisstjórn hefur unnið að tillögugerð og að áfangaskýrslu og stefnir að því að hægt verði að gera vaxtarsamning fyrir Vestfirði sem gildir fyrir árin 2005–2008. Samningurinn er samkomulag einkaaðila og opinberra aðila þar sem sett eru markmið um uppbyggingu svæðisins í tilteknum vaxtargreinum með áherslu á hagvöxt og fyrirtækjaklasa. Stefnt er að því að mynda þrjá klasa en þeir eru sjávarútvegs- og matvælaklasi, mennta- og rannsóknarklasi og menningar- og ferðaþjónustuklasi.

Þessa dagana er verið að taka í notkun nýtt og glæsilegt rannsóknar- og nýsköpunarhús við Háskólann á Akureyri sem mun án nokkurs efa verða allri rannsóknar- og nýsköpunarstarfsemi á landinu til framdráttar. Jafnframt styrkist sú starfsemi sem í húsinu verður mjög stöðu Háskólans á Akureyri en ekki verður lögð of þung áhersla á hversu mikil áhrif háskólinn hefur á að efla Akureyri og bæta búsetuskilyrði þar og víða um land.

Vinna við að bæta möguleika til háskólanáms víðar á landsbyggðinni er í fullum gangi. Þannig er í gangi vinna við að móta skipulag og koma með tillögur um fjármögnun þekkingar háskólanámssetra á landsbyggðinni. Þetta er starf sem skiptir mjög miklu máli að vel takist til um því bætt aðstaða til náms og möguleikar á að vinna að rannsóknum er grundvallaratriði í bættri samkeppnisstöðu hinna einstöku svæða.

Hæstv. forseti. Hér verða ekki fleiri atriði upp talin en vísað til skýrslunnar um framvindu byggðaáætlunar fyrir árin 2002–2005. Eins og áður kom fram ákvað ríkisstjórnin á árinu 2003 að verja 700 millj. kr. til atvinnuátaks á landsbyggðinni og var Byggðastofnun falið að ráðstafa 500 millj. kr. af því fé. Skyldi 350 millj. kr. vera varið til hlutafjárkaupa í álitlegum sprotafyrirtækjum og 150 millj. kr. til að styrkja verkefni sem líkleg væru til að efla grunngerð og nýsköpun á starfsvæði stofnunarinnar. Alls bárust Byggðastofnun 98 umsóknir um hlutafjárframlög, samtals að fjárhæð um 1 milljarður og 750 millj. kr. og var ákveðið að fjárfesta í 23 verkefnum. Þá er stofnunin nú þegar þátttakandi í fjölda verkefna um eflingu grunngerðar og nýsköpunar á landsbyggðinni, og ráðstöfun 150 millj. kr. er þannig langt komin og mun væntanlega ljúka fyrir næstu áramót.

Ef áætlanir verða að veruleika er ljóst að mikill fjöldi starfa mun skapast í kjölfar þessara verkefna á næstu árum.

Í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir þinginu er gerð grein fyrir framvindu byggðaáætlunar og störfum Byggðastofnunar. Að mörgu fleiru hefur verið unnið á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta er varðar uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni á undanförnum missirum. Hefur umtalsverðum fjármunum verið varið til þeirra verkefna. Hér vil ég nefna hugmyndir um byggingu rafskautaverksmiðju í Hvalfirði en slík verksmiðja mundi skapa um 100 ný störf. Þá hefur ráðuneytið tekið þátt í athugun á undirbúningi á byggingu kalkþörungaverksmiðju í Arnarfirði, álþéttiverksmiðju á Akureyri, pólýolverksmiðju á Húsavík, kísilduftsverksmiðju við Mývatn og vikurvinnslu á Mýrdalssandi.

Lög um endurgreiðslu vegna kvikmynda og kynning á þeim hefur haft umtalsverð áhrif á atvinnulíf landsbyggðarinnar. Á undanförnum árum hafa kvikmyndaverkefni velt milljörðum króna.

Þá hefur mikil vinna farið í staðarvalsrannsóknir vegna hugmynda um stóriðju á Norðurlandi. Mikill áhugi er meðal álfyrirtækja á því verkefni og öllum hér inni sem á annað borð hafa heimsótt Austurland á síðustu mánuðum ætti að vera ljóst hvílík áhrif slík uppbygging gæti haft.

Nýverið birti Hagstofa Íslands tölur um búferlaflutninga það sem af er árinu. Þær tölur sýna að víða er fækkun fólks. Sú fólksfækkun stafar ekki fyrst og fremst af atvinnuleysi því víða þar sem fækkunin er mest er atvinnuleysi lítið eða ekkert, svo sem á Norðurlandi vestra. Við þessu verður að bregðast enn frekar. Ég tel að það verði best gert með því að efla samkeppnishæfni einstakra svæða og skapa forsendur til að bjóða upp á sem jöfnust og best búsetuskilyrði, svo sem bættum samgöngum í víðasta skilningi, betra aðgengi að menntun og afþreyingu og þeirri þjónustu sem nútímalífshættir krefjast. Jafnframt verði atvinnulífinu sköpuð skilyrði til að nýta staðbundna kosti til verðmætasköpunar.

Það þarf að gera með því að efla enn frekar stuðning við nýsköpun og frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja með því að tryggja næg framboð af menntun vinnuafls og ekki síst með því að skapa atvinnulífinu sömu starfsskilyrði að öðru leyti og í helstu samkeppnislöndum okkar.

Nú er tæpt ár eftir af tíma núgildandi byggðaáætlunar. Ég hef fyrir nokkru falið Byggðastofnun og starfsmönnum ráðuneytisins að hefja vinnu við gerð byggðaáætlunar fyrir tímabilið 2006–2009. Ég vænti þess að geta lagt þá áætlun fram á haustþingi 2005.

Að lokum vil ég nefna að á vegum iðnaðarráðuneytisins er nú verið að kanna möguleika á að teknar verði upp endurgreiðslur til framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni á hluta flutningskostnaðar. Eftirlitsstofnun EFTA setur slíkum styrkveitingum skorður og nú er verið að vinna að nánari útfærslum endurgreiðslukerfisins og að upplýsingaöflun áður en kerfið verður formlega borið undir Eftirlitsstofnunina.

Hæstv. forseti. Ég er bjartsýn á framtíð landsbyggðarinnar. Það er mat mitt að framvinda byggðaáætlunar sé vonum samkvæmt. Hins vegar tel ég eðlilegt að áætlunin verði nú skoðuð í ljósi fenginnar reynslu og metið hvort þörf sé á að endurskoða tiltekna þætti hennar.