131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:40]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hægt að fylgjast með byggðaþróun í gegnum tölur frá Hagstofunni. Samkvæmt þróun á 3. ársfjórðungi vill svo til (Gripið fram í.) að það er fjölgun í tveimur landshlutum, ef þannig má að orði komast, annars vegar á Austurlandi og hins vegar Suðurlandi. Fækkun hefur hins vegar orðið á höfuðborgarsvæðinu, um 88 manns. Nú er ég ekki að gleðjast sérstaklega yfir því en það er allt í lagi að hafa þessar tölur í huga þegar verið er að ræða byggðaáætlun. Þetta er þróun íbúa í landinu.

Um það hve mörg störfin eru nákvæmlega á hverju svæði hef ég ekki upplýsingar en ég veit a.m.k. að þeim fjölgar mikið á sumum landsvæðum. Sjálfsagt er eitthvert samhengi á milli þessarar íbúaþróunar og fjölgunar starfa. Þá er ég að hugsa bæði um Suðurland og Austurland.