131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:46]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að staldra við eitt atriði sem ég mun fjalla ítarlegar og betur um í dag í ræðu minni, um það sem segir í skýrslunni um rafræna menntun og fjarvinnslu. Síminn, þjónustufyrirtæki okkar Íslendinga í fjarskiptum, hefur skilgreint ákveðin byggðarlög sem of óarðbær til að leggja þangað háhraðanet í gegnum ADSL-kerfi og með því eru þau afsett og sett í 2. flokk. Þarna er um að ræða dreifbýlið og smærri byggðarlög. Þau eru svipt aðgengi að upplýsingahraðbrautinni og jöfnum tækifærum til að byggja upp fjarvinnslu hvers konar og fyrir íbúana að mennta sig í gegnum netið.

Íbúarnir eru afsettir á þennan hátt og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún muni — ekki síst út frá þeim markmiðum sem fram koma í skýrslunni — beita áhrifum sínum og afli til að tryggja að allir íbúar Íslands, hvort sem þeir búa í dreifbýli eða smærri byggðarlögum, hafi aðgang að háhraðaneti. Þá er ég ekki að tala um að menn þurfi að leggja streng heim á hvern einasta bæ heldur eru til margar aðrar lausnir eins og í gegnum örbylgju og fleira. Það þarf hins vegar aðkomu Símans og opinberra aðila að þessu verkefni.