131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[11:48]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil áfram nota tækifærið til að hvetja hæstv. ráðherra til að fylgja jákvæðni sinni til málsins eftir með því að beita sér fyrir því að þegar og ef Síminn verður seldur yfirleitt verði salan skilyrt þannig að hann taki þátt í því félagslega og þjóðfélagslega verkefni að tryggja öllum landsmönnum aðgang að háhraðaneti. Þær byggðir sem hafa ekki aðgang að háhraðatengingu verða einfaldlega ekki samkeppnishæfar í framtíðinni. Málið er svo einfalt — þar sest fólk ekki að.

Ef við beitum ekki afli samfélagsins og samstöðunnar til að tryggja þessum dreifðu byggðum og smærri byggðarlögum aðgengi að háhraðaneti og aðgengi að internetinu, aðgengi að upplýsingahraðbrautinni, aðgengi að þeirri upplýsingabyltingu sem er í gangi og er í vændum og þeim tækifærum sem hún veitir, erum við einfaldlega að slá þessar byggðir af. Það er svo einfalt mál og þess vegna eigum við að beita afli samfélagsins til að tryggja að svo megi verða sem við erum að ræða hér.