131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:05]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Kristjáni Möller um að margt jákvætt hefur verið gert í byggðamálum. Það var alveg hárrétt hjá honum eins og hann byrjaði ræðu sína.

Þar sem um ríki og sveitarfélög er að ræða þá veit hann ósköp vel að nefnd um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er að störfum núna þar sem verið er að tala um að sveitarfélögin fái aðra tekjumöguleika. Sú nefnd mun skila áliti innan skamms. Ég vil svo spyrja hv. þm.: Hvernig stendur á því að mörg sveitarfélög, að mig minnir 67 sveitarfélög í landinu, nýta ekki alla þá tekjumöguleika sem þau hafa rétt á? Það er líka umhugsunarvert.

Varðandi einkahlutafélögin þar sem rætt er um einn milljarð. Sú upphæð hefur ekki verið staðfest. Hafa ekki orðið til fyrirtæki og atvinnutækifæri, tækifæri til atvinnusköpunar með því að létta sköttunum af þessum fyrirtækjum? Má aldrei nokkurn tíma breyta neinu í skattamálum hér á landi? Er aldrei rétti tíminn til þess? Við höfum verið að létta sköttum af fyrirtækjum og það er vel því að þau hafa mikla þörf á því.

Aðalumkvörtunarefni til fjármálaráðuneytisins hefur verið á þann veg að gerð sé of há krafa í endurgjaldið. Það eru aðalkvartanirnar sem hafa komið þangað en allir greiða að sjálfsögðu sína staðgreiðslu.