131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:14]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hlusta á hv. þm. Kristján L. Möller ræða um sjóflutninga og landflutninga. Hann talar um að sjóflutningar leggist af en það er nú svo að enn þá eru sjóflutningar til Vestfjarða. Ég hef margkomið inn á það í þessum ræðustól og spurt þingmenn dreifbýlisins: Í skýrslu sem liggur fyrir frá samgönguráðuneytinu kemur fram að það er 30–70% dýrara að flytja vörur landleiðina en með sjóflutningum en hvernig má þá vera að atvinnurekendur í hinni dreifðu byggð flytji í jafnríkum mæli og raun ber vitni landleiðina? Munu flutningar á landi leggjast af ef stofnuð verður Skipaútgerð ríkisins? Munu þeir flutningar leggjast af ef styrkur verður veittur sérstaklega til landflutninga?

Það hefur meira að segja komið fram hjá sumum stjórnarandstæðingum að það væri eðlilegt að leggja hærri skatta á landflutningana sem þýðir hærra vöruverð úti á landi. Ég verð að segja eftir að hafa hlustað á stjórnarandstæðinga tala út og suður eins og þeir gera hér að þá áttar maður sig ekkert á stöðunni. Það er bara ríkisvaldið sem á að koma til. En hvað með fólkið sjálft í hinni dreifðu byggð? Hvað með atvinnurekendur sem enn eru að flytja landleiðina í ljósi þeirra upplýsinga hve miklu dýrara er flytja landleiðina en sjóleiðina? Af hverju flytja þeir ekki sjóleiðina? Munu sjóflutningar aukast ef landflutningarnir verða styrktir? Þetta er algjörlega út í hött. Menn tala hér út og suður.

Hæstv. forseti. Nei, hér er annað að en að það sé allt ríkinu að kenna að sjóflutningar séu að leggjast af. Það er hinni dreifðu byggð sjálfri að kenna. Og getur verið að það séu undirliggjandi deilur á milli sveitarfélaga um að koma sér ekki saman um að nota einhverja ákveðna höfn?