131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:18]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller kemur að málinu eins og það blasir við. Það er ákveðið vandamál sem blasir við hinni dreifðu byggð í sambandi við flutningana. Það er rétt að vikulegar ferðir skipanna eru mjög óhentugar og óþénugar. (Gripið fram í: ... og fáar hafnir.) Sveitarfélögin hafa ekki komið sér saman um að byggja upp ákveðnar útflutningshafnir innan kjördæmanna. Það er vegna þess, og enginn hefur mótmælt því þá ég hef haldið því fram, að sveitarfélögin geta ekki unnið sameiginlega að því að gera einhverja eina höfn útflutningsvænni en aðra og vinna þannig að markmiðum þess sem hv. þm. kemur inn á. Það er til vansa fyrir hina dreifðu byggð að sjóflutningar skuli ekki halda áfram í ljósi þess sem ég hef sagt. Eðlilega ætti að vera miklu meira um sjóflutninga en raun ber vitni.

Það er eðlilegt að fólk á landsbyggðinni vilji ekki fá matvöru síðasta söludags á borðið hjá sér eða í hillur verslananna. Við höfum talað um ferska fiskinn, svokallaðan flugfisk, sem fer daglega í flug og er orðið miklu meira um en var. Þegar atvinnurekendur úti á landi eru spurðir hvers vegna þeir noti ekki sjóflutningana er svarið þetta: Það eru of strjálar ferðir og mikið óhagræði af sjóflutningunum. Það kostar ákveðið að koma vörunni um borð í skipið, frá borði aftur og keyra hana á þann stað þar sem menn ætla að brúka vöruna hvar svo sem það er.

Það er því svo margt sem er undirliggjandi, það er svo margt sem hefur breyst, eins og hv. þm. Kristján L. Möller kom inn á í ræðu sinni, við erum á fleygiferð í umhverfi breytinga. Hraðinn og kröfurnar eru orðnar það miklar að menn kæra sig ekkert orðið um að nota sjóflutninga, telja það staðnaðan og úreltan flutningamáta.