131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:23]

Guðjón Guðmundsson (S):

Hæstv. forseti. Skýrsla um framvindu byggðaáætlunar er um margt athyglisverð og sýnir að margt hefur tekist vel til þó alltaf megi gera betur. Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir margháttuðum aðgerðum til hagsbóta fyrir landsbyggðina og margt af því hefur bætt mjög stöðu landsbyggðarinnar þó enn séu ýmis vandamál til staðar.

Mér finnst hafa verið vaxandi skilningur á því á undanförnum árum að menntun sé eitt af stóru landsbyggðarmálunum. Það var ekki mikið talað um hana fyrir nokkrum árum þegar rætt var um landsbyggðarmál en nú held ég að allir séu sammála um að uppbygging menntastofnana á landsbyggðinni sé eitt af því sem skiptir hvað mestu í þróun landsbyggðarmála. Getið er um það í skýrslunni að menntamálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafi gert með sér samkomulag í fyrra um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni þar sem lögð er áhersla á eflingu náms með fjarskipta- og upplýsingatækni og til þess varið 100 millj. kr. á ári næstu þrjú árin. Í skýrslunni kemur fram að á þessu ári fari fjármunirnir í háskólanámsetur á Egilsstöðum, fræðasetur á Húsavík, eflingu þjónustu vegna háskólanáms og símenntunar á Vestfjörðum, eflingu símenntunarmiðstöðva um allt land, kjarnaskóla og framhaldsskóla á landsbyggðinni vegna starfsmenntunar, þróunarverkefni í grunnskólum í dreifðum byggðum á Vestfjörðum, þróun framhaldsskóla á Snæfellsnesi, háskóla vegna skipulags og þróunar námsframboðs í fjarkennslu, skráningarvinnu í menningarstofnununum og miðlun menningarefnis.

Þetta eru allt saman mjög mikilvæg verkefni og landsbyggðinni til hagsbóta. Þessu til viðbótar má geta þess að á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg uppbygging í háskólastofnunum á landsbyggðinni. Háskólinn á Akureyri reið á vaðið og tókst einstaklega vel til. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur vaxið og dafnað og er mjög mikilvæg stofnun á landsbyggðinni og starfsemin í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, sem er einkaskóli, hefur vaxið með ótrúlegum hraða. Það er gríðarleg aðsókn í þann skóla og mikil uppbygging og kraftur í starfseminni. Þetta er allt af hinu góða. Ég held að þetta skipti landsbyggðina mjög miklu máli og ekki síður fjarkennslan sem fer vaxandi um allt land. Menn sitja með sveittan skallann vítt og breitt um landið og nema við Háskólann á Akureyri, Viðskiptaháskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og fleiri skóla í gegnum tölvur og þurfa ekki að fara langar leiðir til náms. Þetta er mjög mikilvægt.

Ég held að ákvörðun ríkisstjórnarinnar fyrir tveimur árum um stórátak til atvinnusköpunar á landsbyggðinni hafi skipt verulegu máli. Þar voru lagðir margir milljarðar fyrst og fremst til samgöngubóta, en einnig 700 millj. kr. til að efla atvinnulífið í formi hlutafjár og styrkja til nýsköpunar. Þetta hefur skilað verulegum árangri og fyrst og fremst samgöngubæturnar náttúrlega sem skipta landsbyggðina miklu máli. Við höfum séð að þar hefur átakið gert verulegt gagn. Ekki síður peningurinn sem veittur var til hlutafjárkaupa og til að styrkja sprotastarfsemi vítt og breitt um landið. Þar hefur Byggðastofnun haft með úthlutun peninganna að gera og er lokið að koma hinum 350 millj. kr. til 23 aðila vítt og breitt um landið. Starfsmenn Byggðastofnunar lögðu mikla vinnu í að kanna umsóknir og mjög margar umsóknir bárust. Ég held að þarna hafi tekist afskaplega vel til og ég er viss um að mörg þessara fyrirtækja eigi eftir að skila mörgum störfum á landsbyggðinni og þeim peningum sem ríkisstjórnin lagði í þetta sé vel varið. Þó mönnum finnist þetta kannski ekki stór upphæð held ég að hún eigi eftir að gera mjög mikið gagn. Það er langt komið að úthluta styrkjunum, 150 millj. kr., og vonandi mun það ekki síður takast vel til. Menn hafa lagt mjög mikla vinnu í að rannsaka umsóknirnar og reyna að beina þeim peningum þangað sem þeir koma að mestu gagni.

Það er engum blöðum um það að fletta að það hafa verið gríðarlegar framkvæmdir í vega- og jarðgangagerð á undanförnum árum sem hefur gerbreytt aðstöðu landsbyggðarmanna hvað samgöngur varðar. Við sjáum það ef við förum hringveginn og við sjáum það ef við förum Vestfirðina og víðar um landið að alls staðar hefur ríkið verið að byggja upp öflugt vegakerfi, einnig jarðgöng, Fáskrúðsfjarðargöng, Almannaskarðsgöng, væntanleg Siglufjarðargöng. Allt ógurlega fjárfrekar framkvæmdir sem nýtast fyrst og fremst landsbyggðinni. Það má ekki gleymast þegar rætt er um byggðamál að það hefur orðið alger bylting í samgöngumálum á undanförnum árum og sjálfsagt aldrei í Íslandssögunni verið gert meira í þeim málum sem skiptir fólkið í hinum dreifðu byggðum geysilega miklu máli þó auðvitað bíði þar enn stór verkefni og í okkar fámenna en stóra landi verður sjálfsagt aldrei lokið að fullu því sem þarf að gera í samgöngumálum.

Eitt af því sem mér finnst að hafi tekist afskaplega vel í byggðamálunum á undanförnum árum er tilkoma atvinnuþróunarfélaganna. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið fyrir frumkvæði Egils Jónssonar sem þá var formaður stjórnar Byggðastofnunar að farið var með þau mál í þann farveg sem núna er. Áður var Byggðastofnun að dreifa styrkjum, milljón hér og milljón þar, til einstakra sveitarfélaga og alls konar félaga sem voru að reyna að vinna að atvinnusköpun. Þetta skilaði ekki miklu. Þetta voru einyrkjar og kannski menn í hálfu starfi hjá sveitarfélögunum sem voru að vinna annað eftir hádegi og ég held að það hafi nánast ekkert komið út úr þessu.

Sú breyting varð þarna fyrir frumkvæði Egils Jónssonar á sínum tíma að farið var út í það að stofna til eins atvinnuþróunarfélags í hverju kjördæmi sem Byggðastofnun styddi með mjög myndarlegum hætti. Í stað þess að menn væru að paufast einn og einn í hverju horni er núna í öllum gömlu kjördæmunum eitt félag með 3, 4, kannski 5 starfsmenn sem vinna saman og þeir eru allir sammála um að þetta sé miklu betri aðferð og nýtist betur. Fjárframlög til þessa hafa verið aukin jafnt og þétt og voru, ef ég man rétt, 103 millj. í hittiðfyrra, 115 millj. í fyrra og yfir 120 millj. í ár. Ég tel að flest þessi félög, ef ekki öll, vinni afskaplega gott starf. Þau eru yfirleitt vel mönnuð. Menn hafa fengið þarna til starfa mikla áhugamenn um uppbyggingu á landsbyggðinni sem hafa unnið ágætt starf og ég held að þetta hafi verið mjög góð breyting frá því sem áður var í sambandi við styrki til atvinnuþróunar á landsbyggðinni.

Í skýrslunni er minnst á samvinnu opinberra sjóða, á bls. 5, þ.e. talað um aukna samvinnu opinberra sjóða sem vinna að eflingu atvinnulífsins. Minnt er á að haldnir hafi verið fundir með fulltrúum Ferðamálasjóðs, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Lánasjóðs landbúnaðarins, Orkusjóðs, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Byggðastofnunar þar sem menn hafi skipst á upplýsingum og talað um að gera þurfi þetta með skipulegum hætti. Ég er alveg sammála því að þessar stofnanir þurfa að vinna saman. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að það ætti að sameina nokkra af þessum sjóðum. Það var mikið rætt í sambandi við lagasetninguna um Byggðastofnun fyrir einum fjórum árum og voru flestir sammála því að þessum sjóðum þyrfti að þrýsta eitthvað saman en þegar til á að taka er alltaf einhver andstaða við það og kannski ýmis ljón í veginum. Það hefur þó orðið úr að Ferðamálasjóður hefur verið færður til Byggðastofnunar. Ég held að það hafi verið ágætisaðgerð og tekist vel til en það er mikilvægt að þessir sjóðir vinni saman og rekist ekki á í störfum sínum.

Hér er rætt um endurgreiðslu flutningskostnaðar á bls. 7 þar sem bent er á að iðnaðarráðuneytið sé að kanna möguleika á að taka upp endurgreiðslu til framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni vegna hás flutningskostnaðar. Það held ég að sé mjög mikilvægt. Flutningskostnaðurinn er mjög hamlandi fyrir starfsemi úti á landi og við höfum oft heyrt menn tala um að fyrirtæki sem eru að framleiða úti á landi og selja á höfuðborgarmarkaðnum eða flytja vöruna til Reykjavíkur til að koma henni í skip til útlanda kvarta undan þessum flutningskostnaði. Reyndar þarf ekki að fara lengra en norður fyrir Hvalfjörð þar sem dregið hefur úr mönnum að setja upp starfsemi þar vegna flutningskostnaðar og kostnaðar við Hvalfjarðargöng. Flutningskostnaðurinn skiptir máli og ég fagna því að ráðuneytið skuli vera með það mál í athugun.

Á bls. 14 er minnst á alþjóðlegt samstarf og bent á að við þurfum að fylgjast vel með stefnu annarra þjóða í byggða- og atvinnumálum og reyna að nýta okkur hugmyndir þeirra, draga lærdóm af reynslu annarra þjóða. Ég tek eindregið undir þetta. Ég held að það skipti mjög miklu máli því að byggðaþróunarvandamál sem við höfum verið að stynja undan á undanförnum árum er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Þetta er alþjóðlegt vandamál. Ég minnist þess þegar ég var staddur í Bandaríkjunum fyrir 2–3 árum að mér var sagt að í sögu Bandaríkjanna hefði aldrei verið meira vandamál en núna hinn rosalegi flutningur fólks frá dreifbýlinu til stórborganna. Þetta er vandamál líka víða um Evrópu og þess vegna er þetta ágætisábending. Þetta hefur reyndar verið rætt á vettvangi Byggðastofnunar og ákveðið þar að auka samskipti við aðrar þjóðir. Menn telja það mjög gagnlegt og við höfum gert allt of lítið af þessu. Stjórn Byggðastofnunar og starfsmenn hafa hins vegar ákveðið að efla mjög þessi samskipti og gera könnun á því hvað aðrir eru að gera í þessum málum.

Hæstv. ráðherra gerði ágæta grein fyrir starfsemi Byggðastofnunar. Ég ætla engu við það að bæta öðru en því að taka fram að það er afskaplega gott starfslið í Byggðastofnun. Þar eru eitthvað yfir 25 manns. Því var spáð á sínum tíma að erfitt yrði að manna stofnunina með hæfu fólki þarna úti á landi og aðeins einn starfsmaður stofnunarinnar flutti með henni frá Reykjavík en sem betur fer tókst afskaplega vel til og mikill fjöldi fólks hefur sótt um stöður þar, bæði í upphafi og eins þegar stöður hafa losnað. Menn hafa vandað sig við mannaráðningar og það er afskaplega hæft og gott starfsfólk þarna.

Við höfum oft heyrt í umræðunni að það er ósköp auðvelt að sparka í Byggðastofnun, bölva henni og tala um að þar sé allt ómögulegt en oft finnst mér vera talað af mikilli vanþekkingu. Sem betur fer finnst mér þessi gagnrýni hafa farið dvínandi á undanförnum árum, m.a. vegna þess að þetta fólk vinnur afskaplega góða vinnu.

Það má segja frá því líka að þarna er mjög samhent stjórn sem er skipuð mönnum úr hinum ýmsu flokkum í pólitíkinni en þeir hafa aldrei í neinu tilfelli sem ég man eftir látið það trufla störf sín í Byggðastofnun. Þvert á móti hafa þeir unnið afskaplega vel saman eins og vera ber.

Eitt hefur gerst núna, bankarnir eru farnir að sinna landsbyggðinni aftur. Við munum það fyrir tveimur árum eða svo að bankarnir voru búnir að loka á landsbyggðina nema stærstu fyrirtækin. Nú hefur það gerst að bankarnir hafa farið eins og ryksugur um landsbyggðina og náð fyrirtækjum í viðskipti, boðið þeim hagstæð lán. Það er mjög jákvætt. Það er jákvætt í byggðaþróuninni ef bankarnir fara að sinna landsbyggðinni betur og það hafa þeir gert núna. Það hefur leitt til þess að menn hafa í stórum stíl greitt upp lán sín hjá Byggðastofnun sem mun væntanlega gera lánastarfsemi þeirrar stofnunar erfitt fyrir þó að það sé náttúrlega ekki hennar að vera að standa í samkeppni.

Vandamálið við þetta er hins vegar kannski það að bankarnir velja bestu kúnnana. Þeir velja þá sem hafa yfir aflaheimildum að ráða, stærstu iðnfyrirtækin og þau fáu fyrirtæki í ferðaþjónustunni sem standa vel. En gott og vel, þetta er breyting sem á margan hátt er jákvæð. Vandamálið er þó að lánastarfsemi Byggðastofnunar sitji eftir með þá sem eiga erfiðast.

Það er rétt að minna á að margs háttar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni hefur stóraukist á undanförnum árum. Það má minna á stóriðjuna í Reyðarfirði sem er stærsta byggðamál sögunnar og á eftir að skapa þar gríðarlega mörg störf og vonandi velsæld. Uppbyggingin á Grundartanga hefur tekist vel. Þar eru allt að 400 störf, það er verið að stækka Norðurál og stendur til að stækka það meira, stækka járnblendiverksmiðjuna, byggja rafskautaverksmiðju. Það er í pípunum að byggja kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal og stálpípuverksmiðju í Keflavík. Fiskeldið er að rísa víða um land með mörg störf og margt fleira mætti til tína eins og hæstv. ráðherra gerði reyndar í ræðu sinni. Það er augljóst að það er mikill uppgangur í atvinnustarfsemi víða um land þó að vandamálin séu enn veruleg á einstökum landsvæðum, þá kannski fyrst og fremst á Norðvesturlandi.

Það er augljóst af þessari skýrslu að margt hefur verið gert og margt er í pípunum til að efla landsbyggðina þó að auðvitað megi alltaf gera betur. Eins og fram kom í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra hefur sú breyting orðið að íbúum tveggja landsbyggðarsvæða hefur fjölgað á sama tíma og fækkað hefur á höfuðborgarsvæðinu. Það hefði þótt frétt fyrir nokkrum árum.