131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[12:42]

Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að skýla mér á bak við eitt eða neitt. Ég bendi á að þær breytingar sem þessi ríkisstjórn hefur gengist fyrir í skattamálum hafa rifið upp atvinnulífið í landinu og stórbætt atvinnuástandið. Þetta er í stíl við annað sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í sambandi við uppbyggingu atvinnulífsins, breyta skattkerfinu, fella niður aðstöðugjaldið, lækka tekjuskatt fyrirtækjanna, afnema eignarskattinn og gera svo ótal margt annað til að byggja upp atvinnulífið í landinu. (Gripið fram í.)

Það er alltaf hægt að nöldra út af einhverju en, hv. þingmaður, við verðum að líta heildstætt á hvernig þetta kemur út fyrir atvinnulífið í heild. Það kemur auðvitað alveg stórkostlega vel út. Það er táknrænt fyrir Samfylkinguna að enda svo ræðu sína á því að sig varði ekkert um það sem ég hef verið að segja um hvernig þetta var áður. Auðvitað skiptir máli hvernig ástandið var fyrir 13 árum, hv. þingmaður, þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kom að öllu í molum eftir Samfylkinguna sem nú er og vinstra liðið í landinu. Atvinnulífið var allt í rúst. (KLM: Var það ríkisstjórn ...?) Atvinnulífið var allt í rúst, hv. þingmaður, hvað sem þú galar fram í. Það er alveg táknrænt fyrir þessa gömlu kreppukrata að koma svo hér og segja: Mig varðar ekkert um hvernig ástandið var.

Það sem skiptir máli, hv. þingmaður, er hvernig ástandið er í dag og hvað þessi ríkisstjórn hefur gert til að bæta ástand atvinnufyrirtækjanna í landinu. Það er það sem skiptir máli og það er alveg með ólíkindum að koma hér og segja að sig varði ekkert um hvernig ástandið var þegar vinstri stjórnin hrökklaðist frá með allt á hælunum.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill minna hv. þingmenn á að ávarpa forseta.)