131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:45]

Böðvar Jónsson (S):

Hæstv. forseti. Ótvírætt er að áfengisauglýsingar hafa birst í íslenskum fjölmiðlum um nokkurt skeið með beinum og óbeinum hætti. Þegar bann var sett við þessum auglýsingum á sínum tíma var fjölmiðlaumhverfið allt annað en það er í dag. Þá var hægur vandi að koma í veg fyrir að auglýsingar sem þóttu óæskilegar birtust landsmönnum í sjónvarpi eða í blöðum. Nú er öldin hins vegar öll önnur, fjölmiðlar hafa breyst, þeim hefur fjölgað og nýir miðlar hafa bæst við sem ekki voru til áður. Ég tel að bann við slíkum auglýsingum hér á landi nú sé úr takt við tímann og skili ekki lengur þeim árangri sem að var stefnt á sínum tíma.

Þegar svo er komið að lögin skila ekki lengur tilætluðum árangri er eðlilegt að endurskoða þau og breyta þeim eða fella úr gildi þau ákvæði sem ekki virka eins og þau eiga að gera, eins og á við um 20. gr. áfengislaganna sem fjallar um bann við auglýsingum á áfengi.

Ég skil mjög vel þær áhyggjur margra að áfengisauglýsingar geti haft áhrif á börn og unglinga og jafnvel ýtt undir neyslu þeirra á viðkomandi vörum. Þess vegna væri mjög eðlilegt að samhliða slíkri breytingu á auglýsingum um áfengi yrði skerpt á 20. gr. útvarpslaganna en hún fjallar einmitt um vörn barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum. Þannig mætti t.d. takmarka birtingartíma slíkra auglýsinga eða tryggja að þeim væri ekki beint gegn börnum og unglingum beint.

Við hljótum öll að vera sammála um það, hæstv. forseti, að ofneysla áfengis er bæði skaðleg og óæskileg. Hins vegar er bjór og léttvín ekkert annað en dagleg neysluvara á fjölmörgum heimilum. Ég er ósammála því viðhorfi að feluleikur með ákveðnar vörur komi í veg fyrir notkun þeirra. Ég tel miklu vænlegra að íslensk börn og unglingar alist upp við að umgangast slíkar vörur með gát og hógværð eins og hefur tíðkast hjá velflestum börnum í löndunum í kringum okkur.