131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:52]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í allri umræðu um áfengisauglýsingar þarf að svara einni grundvallarspurningu, þ.e.: Er áfengi eins og hver önnur vara eða er áfengi sérstök vara sem réttlætir að það megi víkja frá almennu viðskiptalegu umhverfi, svo sem varðandi auglýsingu vörunnar?

Hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, hefur svarað þessari grundvallarspurningu eins og hér hefur komið fram. Áfengi er ekki eins og hver önnur vara. Þannig hafa íslenskir þingmenn einnig svarað. Í 20. gr. áfengislaga kemur fram að áfengisauglýsingar eru bannaðar. Þó fylgir hér böggull skammrifi því að fram kemur undanþága þar sem segir að framleiðandi sem framleiðir áfengi megi nota firmanafn í tengslum við auglýsingu á drykkjum sem eru ekki áfengir. Þannig er alveg ljóst að innflytjendur og framleiðendur geta smokrað sér fram hjá auglýsingabanninu. Það hafa þeir gert. Það hefur borið mjög mikið á dulbúnum auglýsingum þar sem óáfengir drykkir eru auglýstir upp en það er greinilegt að ætlunin er að koma áfengum drykkjum á framfæri.

Í skýrslu sem vinnuhópur ríkislögreglustjóra setti fram í nóvember 2001 kemur fram að einn íslenskur framleiðandi byrjaði að framleiða óáfenga drykki að því er virðist einungis til að koma áfengu drykkjunum á framfæri. Þrjár erlendar bjórtegundir voru mikið auglýstar og sagðar óáfengar en þegar til átti að taka voru þær ekki til sölu, þ.e. óáfengar. Auðvitað var þannig verið að auglýsa upp áfenga drykki.

Ég tel að við þurfum að sporna við þessu með einhverjum hætti. Sú nefnd sem hefur skoðað þetta einna best er nefnd ríkislögreglustjóra og í niðurstöðu hennar er sagt að betur þurfi að skýra lagatextann þannig að menn viti hvað þeir mega og hvað ekki. Ég tel mjög æskilegt að þingið skoði það og veit að það er búið að flytja þingmál sem hægt er að skoða í framhaldinu, í þinglegri meðferð.