131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:54]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er bannað samkvæmt lögum að auglýsa bæði tóbak og áfengi hér á landi. Ákvæði laga um bann við tóbaki af öllu tagi eru skýr og afdráttarlaus og þeim hefur verið fylgt eftir. Beinar tóbaksauglýsingar sjást ekki en þrátt fyrir skýlaust bann við að auglýsa tóbak er mjög erfitt að koma í veg fyrir óbeinar upplýsingar í myndbirtingum og kvikmyndum. Bann við áfengisauglýsingum er ekki eins afdráttarlaust. Undanþágurnar eru of víðar og matskenndar. Þetta hafa framleiðendur og dreifingaraðilar notfært sér og ganga alltaf lengra og lengra í að auglýsa merki sín. Þeir munu halda því áfram og verða djarfari í beinum auglýsingum þar til gripið verður inn í þessa óviðunandi þróun með breytingu á áfengislögunum.

Fólki er farið að blöskra hve augljósar og áberandi áfengisauglýsingarnar eru orðnar. Neytendasamtökin hafa vakið athygli á því að lög um bann við áfengisauglýsingum eru brotin nær daglega í íslenskum fjölmiðlum og krefjast þess að ríkisstjórn og Alþingi grípi til viðeigandi ráðstafana til að stöðva þessar ólöglegu auglýsingar, hvort sem um hreinar áfengisauglýsingar er að ræða eða auglýsingar um áfengan bjór, dulbúnar sem léttöl eða auglýsingar fyrir áfengi, dulbúnar sem kynningar eða umfjöllun.

Algengasti mótleikur auglýsenda við banninu er sá að láta eina vöru auglýsa aðra, láta líta svo út sem verið sé að auglýsa drykk sem heimilt er að auglýsa en auglýsa í raun og veru áfengi. Mikil orka og fjármunir auglýsenda fara í að finna leiðir til að sniðganga lögin án þess að það leiði til opinberrar saksóknar. Það er meira að segja svo langt gengið að hvað eftir annað eru börn notuð í áfengisauglýsingum.

Herra forseti. Framleiðendur og dreifingaraðilar áfengis eru í raun að gefa löggjafanum langt nef (Forseti hringir.) með markvissum og útsmognum áfengisauglýsingum.