131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[13:56]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Markmið heilbrigðisáætlunar í áfengisvörnum til ársins 2010 gera ráð fyrir að Íslendingar dragi úr neyslu áfengis frá því sem nú er. Í raun þyrftum við því að herða reglur um áfengi, og gerast þær þó ekki strangari í hinum vestræna heimi.

Stjórnvöld hafa ýmis stjórntæki til að stýra aðgengi að áfengi og hafa áhrif á áfengisneyslu landsmanna, áfengiskaupaaldur, ríkisverslun með áfengi, bann á auglýsingum og hátt verð á áfengi. Hugmyndir um breytingar á öllum þessum þáttum hafa verið ræddar í þessum sölum og eiga þær marga stuðningsmenn meðal þingmanna. Hvers vegna hafa þessar breytingar ekki gengið eftir? Jú, stjórnmálamenn hika við að gera þær breytingar á áfengislöggjöf sem gætu stuðlað að aukinni áfengisneyslu, aukinni unglingadrykkju, ölvunarakstri og slysum í kjölfar þess. Á hinn bóginn, hver vill taka þátt í þeim skollaleik sem viðgengst um áfengisauglýsingar hér á landi? Hér birtast nánast daglega upplýsingar um áfengi í fjölmiðlum, á netinu og á auglýsingaskiltum. Eru þetta auglýsingar eða upplýsingar? Hvar liggja mörkin? Er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að birta auglýsingar á heimasíðu sinni undir merkjum upplýsinga og er vörulisti sem dreift er í vínbúðum stofnunarinnar eitthvað annað en auglýsingabæklingur? Hvað mundum við kalla bjórkynningu sem stendur nú yfir í vínbúðum ríkisins?

Hvaða tvískinnungur er það hjá stjórnvöldum að beita ströngustu reglum í áfengismálum á Vesturlöndum en eyða á sama tíma stórum fjárhæðum í að laða fólk að vínbúðum ríkisins?

Frá lögleiðingu bjórsins 1989 hefur drykkjumynstur Íslendinga gjörbreyst. Veikara áfengi hefur leyst sterkari drykki af hólmi. Með ákveðinni einföldun má segja að drykkjuómenning hafi breyst í vínmenningu. Vínmenningin kallar á upplýsingar. Reglur um auglýsingar á áfengi þurfa að taka mið af þessum þjóðfélagsbreytingum. Ég tel að endurskoða þurfi auglýsingabann á áfengi. Við þá endurskoðun verði m.a. tekið mið af öðrum löndum þar sem auglýsingar á léttum vínum og bjór eru leyfðar við ákveðnar aðstæður, t.d. í blöðum og tímaritum, en bannað að beina auglýsingum að börnum og ungmennum.