131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[14:05]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna umræðunni sem fram hefur farið um áfengisauglýsingar. Ég held að tvennt sé ljóst í henni: Annars vegar að lögin standa, þau eru brotin og við krefjumst þess öll að þess verði gætt að þau séu það ekki. Þessi lög eru ekki ómerkari en önnur lög og sá veruleiki sem við blasir og síðasti hv. ræðumaður talaði um er m.a. til kominn vegna þess að menn hafa ekki staðið við að láta lögin gilda. Menn hafa látið vínsalana komast upp með að brjóta þau. Menn hafa látið peningahagsmuni ráða ferðinni í þessum málum en ekki hagsmuni ungs fólks og unglinga.

Á hinn bóginn hafa menn rætt um að sjálfsagt sé að taka lögin til endurskoðunar á þinginu. Það ræðum við á þinginu og sitt sýnist hverjum um hvernig eigi að endurskoða þau. Sumir vilja færa þau nær því sem gildir einhvers staðar annars staðar. Nú má minna á að alls staðar í þeim heimshluta sem við tilheyrum eru áfengisauglýsingar takmarkaðar og mjög víða bannaðar með öllu. Öðrum þykir ástæða til að opna þetta. Það má auðvitað minna frjálsræðishetjurnar á að það er fleira bannað en áfengisauglýsingar. Það er líka bannað að auglýsa tóbak hér á landi. Það er bannað að auglýsa lyfseðilsskyld lyf. Bannað er að auglýsa læknisþjónustu með markaðslegum hætti vegna þess að við teljum hana ekki af því tagi. Skotvopn eru ekki auglýst á Íslandi og frjálsræðishetjurnar ættu kannski að skoða veruleikann í kringum þetta hér og í öðrum löndum miðað við þá opnun sem hér hefur farið fram.

Eitt veldur mér vonbrigðum í umræðunni, sem annars hefur verið ágæt og við eigum sem betur fer eftir að endurtaka með einhverjum hætti í vetur, og það eru svör ráðherrans. Hæstv. heilbrigðisráðherra vísar í svari sínu til ummæla sem ég las í fyrirspurn minni þar sem hann segir að hann ætli að hefja vinnu í þessu efni og sagði það fyrir 6 mánuðum. Nú kemur hann aftur og vísar til þess að hann ætli að hefja vinnu. Ef einhvern tíma hefur verið talað í hring þá gerir hæstv. heilbrigðisráðherra það og ég bið hann að rjúfa hringinn, rjúfa vítahringinn sem hann og ríkisstjórn hans hafa komið upp (Forseti hringir.) í kringum þessi mál.