131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Áfengisauglýsingar.

[14:07]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og vil taka fram örfá atriði í lokin. Hlutverk heilbrigðisráðuneytisins í þessu efni er að sjá um forvarnir. Lýðheilsustöð gegnir því hlutverki fyrir okkur. Lýðheilsustöð hefur margsinnis kært framkvæmd á áfengisauglýsingabanninu, m.a. ítrekað á þessu ári. Það er hlutverk hennar. En aðalatriðið finnst mér vera að berjast gegn sívaxandi áfengisneyslu í landinu eins og ég kom inn á í inngangserindi mínu og til þess verðum við að hafa sem breiðasta samstöðu. Þess vegna fór ég í gegnum það í inngangserindi mínu sem síðast hefur verið gert í þessum málum á samnorrænum vettvangi. Ég tel afar mikilvægt að við höfum samvinnu við nágrannaþjóðirnar í þessu efni.

Það er alveg rétt að við höfum ekki náð þeim markmiðum sem við settum okkur í heilbrigðisáætlun. Við þurfum að gera það. Hins vegar varðandi breytingu á lögunum og framkvæmd laganna er það gersamlega óeðlilegt að ég fari að ræða það mál sem er á verksviði annars ráðherra og ég ætla ekki að gera það. (Gripið fram í.) Það sem ég hef sagt stendur en það er gersamlega óeðlilegt að beina til mín fyrirspurnum um endurskoðun laganna því það er á verksviði annars ráðherra og rétt að ræða það á réttum vettvangi. Skoðanir mínar liggja mjög ljóst fyrir, gerðu það í vor og gera það núna. Það stendur ekkert upp á mig í þessu sambandi, ekki neitt.