131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:30]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. dró nú nokkuð í land á milli ræðna sinna. (SJS: Nú? Ekki heyrði ég það.) Hann talaði um fjárfestingargat og það er einmitt það gat sem verið er að stoppa upp í með Tækniþróunarsjóði sem ég nefndi áðan og hef ekki fleiri orð um það.

Hv. þm. nefndi annað í fyrri ræðu sinni og það varðaði fjölbreytt atvinnulíf. Þá lét hann að því liggja að það eina sem ríkisstjórnin, og þá sérstaklega sá ráðherra sem hér stendur, hugsaði um væri álver. Það er nú aldeilis ekki því verið er að vinna að gífurlega mörgum málum. Ég get talið upp margar verksmiðjur. Ég taldi þær upp áðan og ætla ekki að endurtaka það. En svo er það líka þekkingariðnaðurinn, t.d. í sambandi við kvikmyndagerð. Þar er nú ekkert smáræði á ferðinni. Hér er verið að vinna þrjár stórar kvikmyndir á heimsmælikvarða og það skapar ekki fá störf og þetta er á grundvelli laga sem eru í gildi og heyra undir viðskiptaráðuneytið um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.

Svona mætti áfram telja. Það er alls staðar verið að reyna að vinna að því að bæta kjör fólksins í landinu og ekki síst á landsbyggðinni. En ég ætla ekkert að halda því fram, og hef aldrei gert það, að það sé alls staðar allt í lagi. Það dettur mér ekki í hug. Þess vegna heldur vinnan áfram.

Svo er það eitt sem hv. þm. hafði einnig miklar áhyggjur af, þ.e. að góðar tekjur í sjávarútvegi væru ekki lengur til staðar. Hann er einmitt fulltrúi og formaður þess flokks sem vill helst eyðileggja það sjávarútvegskerfi sem er í landinu og hvernig skyldu lífskjörin þá verða á landsbyggðinni og hjá því fjölmarga fólki sem vinnur í sjávarútvegi? Þar er ég hrædd um að yrði breyting á.