131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:32]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt að framsóknarmenn væru hættir með þessar ræður um þá þjóðhættulegu menn sem ætluðu að eyðileggja sjávarútveginn eftir ýmsar æfingar á undanförnum missirum. Þeir segja að við sem höfum barist fyrir ábyrgum breytingum á þessu kerfi sem færðu réttindin aftur til byggðanna, séum stórhættulegir menn og séum að eyðileggja þetta. Þetta á sem sagt áfram að vera í höndum nýju, fínu fjárfestanna sem hegða sér eins og raun ber vitni undanfarna daga, banna félagsmönnum sínum eða starfsmönnum að vera í stéttarfélögum svo dæmi sé tekið. Það er von að menn séu hreyknir af stuðningi sínum við slíkt.

Tvennt vil ég koma inn á sem hæstv. ráðherra nefndi. Einkavæðing bankanna, nú á það að hafa gefist allt svona óskaplega vel. Það er rétt að að einu leyti gekk einkavæðing bankanna mjög vel. Hún skilaði þeim sem fengu bankana í helmingaskiptum stjórnarflokkanna gríðarlegum gróða, óheyrilegum gróða. En ég veit ekki til þess að hinir einkavæddu bankar hafi verið að slíta sér sérstaklega út í þjónustu við landsbyggðina. Ætli það sé nú ekki frekar hið gagnstæða og ætli það sé ekki þannig að menn hrósi happi í þeim byggðarlögum sem eru svo heppin að eiga sína eigin sparisjóði, eiga sínar eigin lánastofnanir sem hefur m.a. dugað mönnum víða vel til þess að koma að atvinnuuppbyggingu á stöðunum?

Það er löng leiðin úr útibúum stórbankanna með höfuðstöðvar í Reykjavík sem eru opin í tvo, fjóra klukkutíma þrjá daga í viku hingað suður til Reykjavíkur, svo að ég tali nú ekki um London þar sem er fínast að búa í dag. Það er geysilega löng leið fyrir mann sem þarf fyrirgreiðslu í stórbanka á norðausturhorninu að sækja hana alla í Notting Hill hverfið í London.

Varðandi samgöngumálin sem hæstv. ráðherra nefndi þá hafa vissulega verið framkvæmdir, langþráðar framkvæmdir sem nuddast áfram og eru að komast í gagnið eins og á Tjörnesi. Þakka skyldi það. Hvað eru menn búnir að bíða lengi eftir þeim úrbótum?

En hvað er ríkisstjórnin að gera? Hún er að skera niður vegafé um 1.600–1.700 milljónir á þessu ári miðað við vegáætlun, 1.900 milljónir á næsta ári miðað við vegáætlun og 2.000 milljónir 2006. Þetta er veruleikinn, niðurskurður upp á 5,5–6 milljarða á hinni fínu samgönguáætlun Sturlu Böðvarssonar og ríkisstjórnarinnar sem var varla kólnuð þegar byrjað var að skera hana niður.