131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:54]

Guðjón Guðmundsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum karpað um þetta endalaust, félagarnir. En vegna söguskýringanna vil ég minna á að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var ekki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Til hennar var blásið gegn vilja Sjálfstæðisflokksins.

Af því hv. þm. nefndi ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar þá var sá ágæti forsætisráðherra að burðast við að gera eitthvað af viti, enda voru vinstri menn fljótir að taka af honum höfuðið og setja hann af í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Hann fékk ekki einu sinni að tóra sem forsætisráðherra nema í eitt ár. Þá tóku þeir við aftur og komu öllu á heljarþröm.

Það hefur ekkert upp á sig að karpa um þetta. Staðreyndin er auðvitað að þegar við komum til valda 1991 þá var allt í rúst og allt á heljarþröm. Við sem urðum samferða inn á þing þá, hv. þm. og ég, munum hvernig ástandið var hér á Alþingi fyrstu árin. Þá var endalaust skorið niður og gerðar óvinsælar ráðstafanir til að reyna að ná þessu fyrir vind. Það hefur tekist með miklum myndarbrag og menn eiga að fagna því. Menn verða að viðurkenna að ástandið var svona. Þessi vinstri stjórn, sem auðvitað vildi vel eins og allar ríkisstjórnir, kom hér öllu á kaldan klaka.