131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:55]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svolítið gaman að því hvernig hv. þm. velur orðin. Sumar stjórnir kýs hann að kalla vinstri stjórnir en aðrar ekki. Alþýðuflokkurinn var með Sjálfstæðisflokknum í stjórn frá 1991 og þurfti að taka ákvarðanir um ýmsar óvinsælar ráðstafanir. Þær voru nauðsynlegar á þeim tíma. Þá voru allt aðrir tímar en hafa verið á síðustu tveimur kjörtímabilum. Það er ekki hægt að bera þau saman.

Það er ekki fyrst og fremst afrek ríkisstjórna sem hafa ráðið öllu. Margs konar áhrif viðskipta við útlönd og annað hefur stuðlað að þeim árangri sem náðst hefur. Sá árangur hefur m.a. náðst af því að gera samninga við erlend ríki, m.a. með þeim samningi sem núna á afmæli, EES-samningnum. Þótt ég hafi ekki stutt hann á sínum tíma þá hef ég séð þann jákvæða árangur sem af honum hefur orðið.

Það er svo sem hægt að tala endalaust um fortíðina en mér fannst ástæða til að nefna að menn eiga margt sameiginlegt, margir flokkar, úr fortíðinni. Það getur verið ágætt að rifja það upp öðru hvoru en mér finnst ekki ganga að hengja bara bjölluna á einn kött í því, það getur aldrei gengið upp.