131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[14:57]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu skýrsla iðnaðarráðherra um byggðaáætlun 2002–2005. Eðli málsins samkvæmt er um mjög umfangsmikið efni að ræða en í upphafi máls míns vil ég þó segja að ég tel að margt hafi áunnist í byggðamálum á þessu tímabili þótt alltaf megi gera betur. Að því stefnum við.

Það liggur í hlutarins eðli að í ræðunni mun ég einkum benda á það sem betur má fara. Þótt margt hafi áunnist, eins og ég hef áður sagt, held ég að ræða mín verði ekki ólík öðrum ræðum sem hér hafa verið fluttar. Að sjálfsögðu mun ég nefna punkta sem ég tel að betur megi fara í framkvæmd byggðaáætlunar.

Síðan áætlunin var sett fram árið 2002 hafa margir ánægjulegir hlutir litið dagsins ljós. Þar ber náttúrlega hæst framkvæmdir við álver í Reyðarfirði. Þar er um áratugalanga baráttu Austfirðinga að ræða og segja má að samstarf Austfirðinga, sérstaklega sveitarstjórnarmanna þar, og ríkisstjórnarinnar í þessu máli hafi verið til fyrirmyndar. Það segir okkur að það er nauðsynlegt að sýna frumkvæði, líkt og Austfirðingar gerðu varðandi atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Frumkvæðið þarf að koma úr byggðunum sjálfum og oftar en ekki eru stjórnvöld reiðubúin að koma að málum og liðsinna mönnum.

Hér hefur mikið verið rætt um fólksfjöldatölur og fólksfækkun á landinu. Ég vil nefna að á þriðja ársfjórðungi þessa árs birti Hagstofan tölur sem eru aldeilis ekki í takt í við þróunina á umliðnum árum. Reyndar eru tölurnar allt öðruvísi en þær sem við höfum séð síðastliðinn áratug. Einungis á tveimur landsvæðum voru aðfluttir umfram brottflutta. Það var ekki á höfuðborgarsvæðinu heldur var það á Austfjörðum og á Suðurlandi. Öðruvísi mér áður brá. Ég tel að sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn, undir forustu hæstv. iðnaðarráðherra, hefur beitt sér fyrir sé farin að bera ávöxt.

Hins vegar stöndum við frammi fyrir þeim veruleika að ákveðin landsvæði heyja varnarbaráttu nú um stundir. Því er ekki að leyna og við megum ekki loka augunum fyrir því. Um þau svæði væri hægt að taka fjöldamörg dæmi. Ég ætla að taka nokkur dæmi. Við getum byrjað á að nefna byggðirnar við utanverðan Eyjafjörð, þar sem búa um 4.500 manns, á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði. Þar á fólksfækkun sér stað. Það er nauðsynlegt og það er skylda stjórnvalda að hlúa að þeim byggðum og skapa það umhverfi og aðstæður að þær nái að vaxa og blómstra.

Ef við tökum það sem horfir við þessum byggðum getum við tekið sem dæmi þann vaxtarsamning við Eyjafjörð, Eyjafjarðarsvæðið, sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur beitt sér sérstaklega fyrir. Sá samningur og sá vöxtur sem mun verða á Eyjafjarðarsvæðinu í framtíðinni mun verða þessum byggðum mikil lyftistöng. Íbúar þeirra horfa mjög til þeirrar framtíðar að Eyjafjörðurinn verði eitt atvinnusvæði og þar horfum við sérstaklega á samgöngubætur milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar með Héðinsfjarðargöngum sem munu skapa mikil sóknarfæri fyrir þessi byggðarlög.

Við höfum einnig horft hér á tillögu til þingsályktunar sem liggur fyrir þessu þingi, tillögu um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð sem þingmenn allra flokka koma að. Ég fullyrði að slík stofnun mundi styrkja byggð til muna við utanverðan Eyjafjörð.

Ég ætla að gera hér að umtalsefni annað málefni sem gæti styrkt sjávarbyggðir hringinn í kringum landið og þar með þessar byggðir líka en það er úthlutun veiðigjaldsins. Það er skilyrðislaus krafa frá sjávarbyggðum hringinn í kringum landið að þeir fjármunir sem af veiðigjaldinu munu koma skuli renna til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar í sjávarbyggðunum.

Það er kveðið á um úthlutun veiðigjaldsins í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þar sem segir reyndar að „hugað verði að því að veiðigjaldið sem íslenskur sjávarútvegur greiðir muni renna til sjávarbyggðanna til uppbyggingar“. Íslenskur sjávarútvegur er staðsettur á landsbyggðinni. Meginstarfsemi íslensks sjávarútvegs fer fram á landsbyggðinni. Alþingi ákvað á síðasta kjörtímabili að setja sérstakt gjald á sjávarútveginn, svokallað veiðigjald. Ef það gjald á að renna í sameiginlega sjóði okkar landsmanna og á að renna út úr þessum sjávarbyggðum erum við að lögleiða og innleiða sérstakan landsbyggðarskatt sem ég mun ekki geta staðið að.

Íslenskur sjávarútvegur er þannig uppbyggður að hann leitast við að hagræða í rekstri sínum. Ég á ekki von á því miðað við núverandi ástand í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs að störfum muni fjölga í einhverjum mæli í þeirri atvinnugrein. Því er það lífsspursmál fyrir þessi sveitarfélög sem byggja afkomu sína nær alfarið á sjávarútvegi að það fjármagn renni til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar í viðkomandi sveitarfélögum. Annars er um hreinan landsbyggðarskatt að ræða, eins og ég hef áður sagt hér, og slíkt er óásættanlegt.

Það er barátta á fleiri landsvæðum. Ég get nefnt að það er mikil barátta í Þingeyjarsýslum. Það landsvæði hefur þann kost að þar eru mjög mörg tækifæri fyrir hendi vegna þeirra náttúruauðlinda sem Þingeyingar búa að og við bindum miklar vonir við kísilduftsverksmiðju og öfluga atvinnuuppbyggingu tengda orkufrekum iðnaði. Ég vil þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir skörulegan framgang í þeim málum þó að allt sé ekki orðið ljóst.

Hér hefur verið minnst á það að samgöngumál skipti mjög miklu máli í byggðalegu samhengi. Ég er sammála því. Því getum við horft á það hvað göng um Vaðlaheiði gætu gert fyrir Eyjafjarðar- og Þingeyjarsvæðið. Ég tel að ef sú framkvæmd yrði aftarlega á forgangslista íslenskra stjórnvalda mundi ég vilja sjá að athugaðir yrðu kostir einkaframkvæmdar við þá framkvæmd því að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða sem mundi efla Þingeyjarsýslur og Eyjafjarðarsvæðið til mikilla muna.

Ég tek undir með hæstv. iðnaðarráðherra sem sagði áðan að við yrðum að horfa á ný tækifæri í byggðamálum. Ég vil hrósa enn og aftur hæstv. iðnaðarráðherra fyrir framsýni í mörgum málum sem því tengjast. Þar horfi ég sérstaklega á menntamálin. Ég sé að hv. þm. Sigurjón Þórðarson hlær hér mikið en ég hef ekki orðið var við það að tillögur Frjálslynda flokksins í byggðamálum hafi verið upp á marga fiska. Ég vil sem sagt horfa á menntamálin. Við getum tekið sem dæmi þekkingarsetur Þingeyinga sem hefur valdið straumhvörfum í Þingeyjarsýslum. Hæstvirtir iðnaðar- og menntamálaráðherrar hafa komið mjög myndarlega að uppbyggingu þess seturs. Þar hefur ungu menntuðu fólki úr Þingeyjarsýslum gefist kostur á að flytja í heimahaga sína og vinna störf sem hæfa menntun þess.

Við horfum einnig á vaxtartækifæri tengt þessu á Vestfjörðum, tengt háskólasetri og líka á Austurlandi. Þetta eru þeir vaxtarbroddar sem landsbyggðin getur byggt á til framtíðar því að það er staðreynd að menntunarstig íslensku þjóðarinnar er að hækka. Það unga fólk sem elst upp til að mynda á Ísafirði, Egilsstöðum eða Húsavík verður að geta sótt heim og unnið störf sem tengjast menntun þess, annars er til lítils unnið.

Það er óumdeilanlegt — ég held að við séum sammála um það, mörg sem hér erum — að það er bráðnauðsynlegt og í raun og veru réttlætismál að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Ég verð að segja að ég sakna tillagna frá mörgum ráðuneytum í þeim efnum í þeirri ágætu skýrslu sem iðnaðarráðherra hefur kynnt hér. Við getum haldið áfram að taka dæmi. Við getum tekið dæmi um eftirlitsstofnanir sjávarútvegsins en sjávarútvegurinn fer fram á landsbyggðinni.

Hjá Fiskistofu t.d. sem hefur eftirlitshlutverk gagnvart íslenskum sjávarútvegi, sem nánast að öllu leyti er á landsbyggðinni, eru einungis sex starfsmenn staðsettir á landsbyggðinni og sinna eftirliti gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Reyndar er það fagnaðarefni að starfsmönnum hefur fjölgað á Fiskistofu á Akureyri, úr tveim stöðugildum í fimm. En betur má ef duga skal þar. Hins vegar hefur störfum á Vestfjörðum fækkað úr tveimur í eitt.

Ég spyr mig þeirrar spurningar, og er trúlega ekki einn um það, hvort þetta séu eðlileg hlutföll. Ég er til að mynda sem þingmaður landsbyggðarinnar sammála því að ráðuneytin eigi að vera staðsett á höfuðborgarsvæðinu vegna nálægðar við Alþingi og vegna stjórnskipulegra þátta — en hvers vegna er þá ekki eftirlitsiðnaðurinn með sjávarútvegi staðsettur á landsbyggðinni? Það er ekki eðlilegt að um eða innan við 10% starfsmanna Fiskistofu séu staðsett á landsbyggðinni þegar yfir 90% af þeirri starfsemi fer þar fram. Hér er hlutföllunum snúið á hvolf.

Ég er hér einungis að taka eitt dæmi af handahófi en hægt er að taka mörg fleiri. Það er því sjálfsögð og eðlileg krafa að hlutfall opinberra starfsmanna hækki á landsbyggðinni og að því ber að stefna.

Ég verð að segja hér að við ræðu hv. 5. þm. Norðaust., Steingríms J. Sigfússonar, varð ég satt best að segja orðlaus, í fyrsta lagi vegna þess hvernig hv. þm. talaði um þá miklu atvinnuuppbyggingu sem nú á sér stað á Austurlandi. Þar er bjartsýnin í brjósti fólks og mikill hugur í fólki gagnvart þeirri uppbyggingu sem þar er byrjuð að eiga sér stað og mun eiga sér stað. Svo undrast ég þann bölmóð sem kom fram í máli hans þegar við horfum til að mynda á Eyjafjarðarsvæðið, þann vaxtarsamning sem þar er búið að gera og þá framtíðarsýn sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur þar mótað. Ef þetta eru ekki áætlanir og ef þetta ber ekki vott um framkvæmdir hæstv. ríkisstjórnar í byggðamálum síðustu árin átta ég mig ekki alveg á því hvað hv. þm. var að fara. Það hefur mikið áunnist í byggðamálum, sérstaklega á þessum tveimur landsvæðum, vil ég meina. Það má líka gera margt annað.

Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að hann vilji einbeita sér að því að efla atvinnumál í Norðvesturkjördæmi. Ég hef trú á því að þar verði efndir á.

Við getum líka spurt okkur annars. Ef þeir þrír flokkar sem nú mynda stjórnarandstöðu á þingi hefðu verið við völd værum við þá að horfa á atvinnuuppbyggingu á Austurlandi, við stóriðju þar, með vinstri græna í ríkisstjórn? Ég held ekki. Með Samfylkinguna hálfklofna í því máli? Ég held ekki. Værum við að horfa á það að við styddum myndarlega við íslenskan landbúnað með Samfylkinguna við völd og alla þá krata sem þar eru innan borðs? Ég held ekki. Ég hef hlustað á margar ræður úr þessum stóli Alþingis þar sem ákveðnir þingmenn Samfylkingarinnar eru afskaplega hissa á því hvað við verjum miklum fjármunum til landbúnaðarmála og niðurgreiðslu á matvöru. Þar er um stórkostlegt byggðamál að ræða.

Værum við að horfa á öflug fyrirtæki í sjávarútvegi ef þessir þrír flokkar hefðu staðið hér að stjórn mála? Nei, aldeilis ekki. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar koma hér upp og kvarta yfir því að rekstrarskilyrði íslensks sjávarútvegs séu mjög erfið. Það er að miklu leyti vegna utanaðkomandi aðstæðna, vegna gengismála, afurðamála og annars slíks. Nei, það sem þessir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar vildu sjá í sjávarútvegsmálum er jú það að þeir vildu taka kvótann af þeim sterku sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru að glíma við mjög erfið skilyrði á markaði. Þeir vildu taka allan kvótann af Fiskiðjunni Skagfirðingi, Eskju, Síldarvinnslunni, Þormóði ramma – Sæbergi, ÚA, Samherja, úthluta þeim bara eitthvað annað og tala um að einn sægreifi eigi hvert fyrirtæki. Sægreifarnir — það er þeirra orð.

Þetta eru almenningsfyrirtæki. Hverjir eiga stærstan hlut í íslenskum sjávarútvegi hér á landi í dag? Það eru lífeyrissjóðir. Það eru lífeyrissjóðir íslensku þjóðarinnar, sameign okkar allra. Það er ekki einhver einn maður sem á Samherja. Það var kannski þannig árið 1988 eða 1990 en við lifum bara einfaldlega ekki við þannig veruleika í dag.

Hv. stjórnarandstaða kemur hér og talar um réttlæti í íslenskum sjávarútvegi sem mundi setja ekki bara lífeyrissjóðakerfið og eignir okkar allra landsmanna, bankakerfið og allan okkar þjóðarbúskap á annan endann og talar svo í hinu orðinu um hvað það sé hrikalegt að sjávarútvegurinn búi við erfið skilyrði. Reyndar geta íslensk stjórnvöld lítið að því gert. Það er dálítill tvískinnungur í þessu máli.

Ég held að hv. stjórnarandstaða verði að taka sig saman í andlitinu í byggðamálum — ég er búinn að nefna hér þrjá grundvallarþætti sem snerta byggðir landsins — áður en hún heldur áfram að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að mörgu leyti ágæta frammistöðu í byggðamálum.