131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:16]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. spurði: Hvað vill hv. þm.? Ég vil fá svör við þeim spurningum sem ég bar upp. Því miður kaus hv. þm. Birkir J. Jónsson að svara einhverju allt öðru og tala um Siglufjörð og eitt og annað.

Ég ætla þá að endurtaka spurningar mínar:

Hefur hv. þm. ekki áhyggjur af því að engin nýliðun verði í greininni, þar með talið á Siglufirði?

Hefur hv. þm. engar áhyggjur af því að það borgi sig ekki að veiða minni fisk sem er á miðunum fyrir norðan?

Ég hef engan áhuga á því að vera með einhverja neikvæðni í garð Siglufjarðar. Þó svo að menn geti talið upp einhver störf þar ætla ég að geyma þá umræðu, hún á að vera uppbyggileg. Ég hafði sannast sagna haldið að Birkir J. Jónsson hefði viljað fagna því sérstaklega að fá að ræða vandamál heimabæjar síns. Mér kemur það mjög á óvart að hann sé hvumpinn yfir því.

Hvað ég veit um atvinnulífið á Siglufirði, ég veit ýmislegt, enda hef ég starfað í bænum undanfarin ár.