131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:23]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem mér kemur í huga er gamalt máltæki: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Hv. þm. Birkir J. Jónsson minnir mig á hæstv. landbúnaðarráðherra í tilsvörum sínum í ræðustól. Hann fer eins og köttur í kringum heitan graut og segir helst ekki neitt af viti, því miður. Þetta eru eintómir útúrsnúningar. Ég kom hérna fram með staðreyndir sem liggja fyrir á blaði, grjótharðar staðreyndir. (Gripið fram í: Hvar eru staðreyndirnar?) Þingmaðurinn forðaðist að tala um þetta, sem er alveg með ólíkindum.

Hér hefur verið talað um Siglufjörð. Sjávarútvegsnefnd þingsins var líka á Siglufirði. Þar eru mikil vandræði, m.a. vegna samdráttar í rækjuveiðum sem menn ráða ekki við vegna viðskiptaástæðna og niðursveifla hefur orðið í rækjuveiðum. En ég spurði einmitt einn af forsvarsmönnum bæjarstjórnar þar: Hvað með fiskinn, er fiskur hér í firðinum fyrir utan? Nógur fiskur. Ekki hefur verið jafnmikil fiskigengd í mörg, mörg ár. En vandamálið með Siglfirðinga er að þeir mega ekki veiða fiskinn. Byggðarlaginu er meinað að nýta mikilvægustu auðlind sína sem er fiskurinn í sjónum. Gegn þessu hamla núverandi ríkisstjórnarflokkar, m.a. með nýskipaðan varaformann sjávarútvegsnefndar og ráðherra byggðamála í fararbroddi.