131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:27]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns geta þess að í Framsóknarflokknum eru menn ekki forritaðir sérstaklega til að þeir hafi skoðanir á málum. Ég var fyrst og fremst að gera grein fyrir áherslum og sjónarmiðum mínum hvað þetta varðar. Þegar hv. þingmaður talar um tvær fylkingar og tvær stefnur í Framsóknarflokknum, þá er það ekki þannig. Við höfum ákveðið og markað stefnu okkar á flokksþingi Framsóknarflokksins og eftir því hefur þingflokkur Framsóknarflokksins unnið. Fyrir síðustu kosningar fór þingflokkurinn fram með núverandi stefnu í sjávarútvegsmálum. Við erum ekkert að koma aftan að kjósendum í þeim efnum. Stefna okkar í þeim efnum er ljós.

Af því að hv. þm. talar um tvær fylkingar og tvær stefnur getur flokkur eins og Samfylkingin trúlega leyft sér það, til að mynda í skattamálum og öðrum málum þar sem ég held að þeir hafi lofað öllum þeim skattalækkunum sem mögulegar eru, nema þeir kannski skipta hópnum í tvennt eða eitthvað slíkt. Ég hef ekki orðið var við einhverja eina heildstæða stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum.

Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann sé ekki sammála mér um það að hið ytra umhverfi sem íslenskur sjávarútvegur býr við nú, afurðaverð, gengismál og annað slíkt, hefði ekki getað mætt þeim erfiðu aðstæðum á 9. áratug síðustu aldar, þar sem allt logaði í gjaldþrotum. Sjávarútvegsfyrirtæki urðu yfirleitt gjaldþrota einu sinni í mánuði, það þótti til tíðinda ef liðu meira en tveir, þrír mánuðir án þess að eitthvert sjávarútvegsfyrirtæki færi í greiðsluþrot. Við erum búin að byggja upp mjög öflugt sjávarútvegskerfi, öflug sjávarútvegsfyrirtæki, sem hafa viðhaldið og haldið uppi hagvexti hér í landi og kaupmáttaraukningu til hagsbóta fyrir alla. Ég vara við þeirri stefnu eða þeim stefnum sem Samfylkingin hefur lagt til í sjávarútvegsmálum.