131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:29]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt því ekki fram að menn væru forritaðir í Framsóknarflokknum, en það er kannski skipt um stöður eftir því hvaða forrit er í viðkomandi. Það sýnist mér að hafi verið gert núna.

Annað vil ég segja og það ætti hv. þingmaður að kynna sér. Aðstæður í sjávarútvegi núna eru ekki slæmar. Ef menn bera saman fiskverð og ýmislegt annað sem við kemur sjávarútveginum við það sem var á þeim árum sem hv. þingmaður vísaði til, þá munu menn aldeilis sjá að það hefur orðið mikill munur á. (Gripið fram í: En olíuverðið?) Olíuverð hefur stundum verið hærra en nú, þó ýmislegt sé sagt um það í fréttum.

En um landbúnaðarmálin, Guð almáttugur! Að ungt fólk í Framsóknarflokknum skuli ætla að ganga í þessi gömlu fótspor á gúmmískónum, það er óskaplegt. Landbúnaðarstefna Íslendinga er aftan úr grárri forneskju og Framsóknarflokkurinn hefur varið hana með oddi og egg fram að þessu og það örlar ekki fyrir breytingu, ekki hjá þeim yngstu einu sinni.