131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:47]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir fór yfir nokkra kafla úr skýrslunni og ræddi þá sem gott er að ræða um en sleppti ýmsum öðrum, enda ekki mikill tími. Ég ætla að freista þess að leggja spurningu fyrir hv. þm. og óska eftir áliti á því sem snýr að jöfnun rekstrarskilyrða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu líkt og ég hef lagt fyrir annan þingmann Sjálfstæðisflokksins fyrr í dag, en fékk ekki svar við. Spurningin snýr að skattkerfisbreytingunni sem gerð var 2001 og var að margra dómi ágæt að mörgu leyti en hafði ýmsa galla. Einn gallinn að mínu mati var sá að lækkun á eignarskattinum og hækkunin á tryggingagjaldinu gagnvart atvinnufyrirtækjum, lögaðilum, hafði þau áhrif sem ég hef áður nefnt og hygg að hv. þm. hafi hlustað á en skal árétta, að fyrirtæki í Reykjavík og á Reykjanesi græddu 2,7 milljarða kr. á breytingunni en fyrirtæki á Vesturlandi, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum högnuðust um 6 eða 7 millj. kr. Ég veit að ég þarf ekki að útskýra fyrir hv. þm. hvers vegna þetta er vegna þess að landsbyggðarþingmaður eins og hún gerir sér grein fyrir því.

Ég vil því spyrja hv. þm. hvort skattkerfisbreytingin hafi verið góð að hennar mati og hvort jafnræðissjónarmið hafi ráðið gagnvart öllum atvinnurekstri á landinu.