131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:49]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf skemmtilegt þegar menn festa sig í einstöku atriði. Ég held að skattkerfisbreytingin hafi skilað sér afskaplega vel til atvinnulífsins í landinu, ekki síst til landsbyggðarinnar. Ef við horfum eingöngu til tryggingagjaldsins mun það hækka hjá starfsmannafrekum fyrirtækjum og þar sem hár hluti af rekstrarkostnaði snýr að launagreiðslum. Ég hef hins vegar ekki heildarúttekt á því, þó hv. þm. Kristján L. Möller nefni tölur, hvernig skattkerfisbreytingarnar komu við einstök landsvæði hvað varðar tekjuskattinn og hvað varðar önnur atriði í þeim skattbreytingum sem þarna urðu.

Ég fagna því ef fyrirtæki eru almennt orðin það stöndug að þau eru farin að borga skatta sem virðist vera þar sem tekjur ríkissjóðs af t.d. tekjuskatti fyrirtækja hafa stórlega vaxið. Ef ekki kemur tekjuskattur af fyrirtækjum á landsbyggðinni tel ég það miður. Ef hins vegar skattkerfisbreytingin í heild skilar atvinnulífinu betri starfsskilyrðum er það eitthvað sem við hljótum öll að fagna. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. taki undir það.