131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:27]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði að Síminn væri á fleygiferð í að auka þessa þjónustu sína. Það hittist þannig á að ég fékk bréf, dagsett 20. þessa mánaðar, frá Símanum þar sem hann segir m.a. að ADSL-væðing á vegum Símans sé á fleygiferð.

Hvers vegna er það? Jú, það er vegna þess að verið er að leggja áherslu á að koma stafrænu sjónvarpssendingunum og útvarpssendingunum í gegnum heimtaugarnar, í gegnum koparinn og nýta sér þá möguleika.

Í bréfinu segir m.a. að nú sé unnið að því að ADSL verði tengt t.d. á Flateyri, í Búðardal, á Flúðum, Djúpavogi og Suðureyri. Það er því vilji Símans að nýta þessi kerfi og þær fjárfestingar. Forsendur fjarskiptalaganna voru m.a. þær að aðgangurinn bæði að heimtaugunum og að netunum væri til staðar sem skylda (Forseti hringir.) og Síminn gerir sér mjög vel grein fyrir því og er þess vegna að byggja þetta svona upp.