131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002–2005.

216. mál
[16:36]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að fjarskipti skipta mjög miklu máli fyrir hinar dreifðu byggðir og við eigum að hafa þær sem bestar.

Í kaflanum um jöfnun verðs á gagnaflutningum er gerð grein fyrir ATM-netinu. Nú hef ég heimildir fyrir því að fyrir þá staði sem eiga þann eina kost að tengjast ATM-netinu, þ.e. þar sem ekki er ADSL-samband, sé kostnaðurinn 55 þús. kr. fyrir sambandið. En mörg þau fyrirtæki og stofnanir gætu hæglega nýtt sér og hafa ekki þörf fyrir meira samband en ADSL. Fróðlegt væri að fá að heyra afstöðu hæstv. ráðherra til þessa, en mér skilst að verðskráin hafi ekki breyst frá árinu 2001 hvað þetta varðar.