131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:41]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég á mjög auðvelt með að svara þessari spurningu og fagna henni vegna þess að við stöndum í miðju átaki í vegamálum, m.a. í Norðvesturkjördæmi, og ekki síst með góðum stuðningi hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Ég held því að við getum sameinast um og verið sammála um að átak í vegamálum á þessu svæði skiptir miklu. Við getum nefnt ótal dæmi. Mikið er um að vera í Djúpinu og miklar framkvæmdir eru fram undan á Vestfjarðavegi á Barðaströnd. Við erum nýbúin að endurbyggja Bröttubrekku og ný brú yfir Kolgrafarfjörð hefur verið tekin í notkun núna. Þetta hefur mikil áhrif á byggðamunstrið og byggðirnar á þessu svæði. Þverárfjallsvegur hefur mjög mikil áhrif. Svo er það endurbygging vegar í Norðurárdal í Skagafirði og Stafholtstungum í Borgarfirði. Allt eru þetta framkvæmdir innan seilingar þannig að við erum í miðju átaki.

Ég held því að við getum ekki skotið okkur á bak við að samgöngumálin á þessu svæði séu til trafala eins og við þingmenn þessa kjördæmis stefnum að að framkvæmdir verði á þessu svæði.