131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[17:01]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hafa farið fram fróðlegar og um margt ágætar umræður um byggðamál, hvað gert hefur verið, hvað betur má fara og hvar vantar upp á. Ég ætla ekki að fara inn í endurtekningar á því heldur staldra við nokkur atriði sem vekja áhuga minn sérstaklega og eru að mínu mati meðal lykla að því að byggðastefna standi undir nafni og sé þess bær að ná því hlutverki sem hún á að ná sem er að vera forsenda nýsköpunar og eflingar allrar landsbyggðarinnar.

Þar ætla ég að byrja með á máli sem ég kom inn á í andsvörum við hæstv. samgönguráðherra áðan og lítils háttar í umræðu um þriðju kynslóð farsíma fyrr í vikunni, mál sem lýtur að háhraðatengingum fyrir smærri þéttbýlisstaði með undir 150 íbúum og dreifbýli. Af því tilefni ætla ég að leggja út af skriflegu svari við fyrirspurn sem ég bar fram á síðasta löggjafarþingi til hæstv. ráðherra samgöngumála.

Þar spurði ég hann:

1. Hvaða sveitarfélög á landinu hafa háhraðatengingar og hver ekki?

2. Hver er íbúafjöldi þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa háhraðatengingar, sundurgreint eftir sveitarfélögum?

Við þessari fyrirspurn fékk ég mjög vandað svar, og var og er mjög þakklátur fyrir að í ráðuneytinu var þetta tekið saman af mikilli kostgæfni. Út úr þeirri samantekt kom greinargott yfirlit yfir stöðu mála sem er hreint ekki nógu góð. Vonandi stendur það til bóta á næstu mánuðum og missirum, ég bind vonir við að þessu verði gjörbreytt. Á meðan við búum við það að mikill fjöldi Íslendinga býr ekki við háhraðatengingar og góðan aðgang að upplýsingahraðbrautinni, internetinu og upplýsingabyltingunni erum við einfaldlega að setja þennan hluta samfélagsins af í samkeppni um bættar og öflugar byggðir af því að hvorki fleiri né færri en 22.417 Íslendingar, samkvæmt þessu svari fyrir nokkrum mánuðum, hafa ekki aðgang að háhraðatengingu að hluta eða neinu leyti. Þarna er búið að taka sérstaklega út úr og skilgreina, í þrennu lagi, ADSL-möguleika, gervihnattasamband og örbylgjusamband.

Sprottið hafa upp mörg öflug fyrirtæki sem veita þessa þjónustu. Þau hafa verið að veita hana í mörgum byggðarlögum, m.a. Grímsnesi, uppsveitum Árnessýslu að hluta og víðar, og gefst íbúum þar þá í raun og veru í fyrsta sinn kostur á að kaupa sér — vissulega gegn töluverðu gjaldi en kaupa sér samt — ágæta háhraðatengingu. Þó að það jafnist að sjálfsögðu ekki á við ADSL-tenginguna og þá sítengingu sem hún býður upp á er þetta samt, má segja, að einhverju leyti á pari við það. Það er a.m.k. ekki um að ræða hægfara tengingar eða upphringibúnað heldur nokkuð stabílar háhraðatengingar þannig að það hefur breytt þessu verulega.

Kjarninn í málflutningi mínum og skilaboðum til stjórnvalda og þeirra sem fara með samskiptamálin í landinu, byggðamálin í landinu og hlutabréf okkar Íslendinga í Símanum er að ríkisvaldið beiti Símanum fyrir sig til að hafa milligöngu um það að hvert einasta heimili á Íslandi hafi aðgengi að háhraðanettengingu innan einhvers ákveðins tíma. Eins og ég benti á erum við ekki að tala um að leggja streng eða kapal heim á hvern bæ eða hvert heimili heldur að beita þeim möguleikum sem tæknin og tæknibyltingin býður upp á, örbylgjunni, gervihnöttunum og því öllu. Að sjálfsögðu þykir mér það einnig liggja í augum uppi að skipt verði við þau fyrirtæki sem veita þessa þjónustu nú þegar, Snerpu á Ísafirði, eMax, Ábótann, Tengi og hvað þau nú heita, þessi öflugu fyrirtæki sem sprottið hafa upp, en fyrir milligöngu stjórnvalda og Símans. Það á að vera skilgreint verkefni sem yfirvöld hafa með höndum að tryggja öllum íbúum Íslands byggða aðgengi að háhraðatengingum.

Í ágætum köflum í skýrslu iðnaðarráðherra um framvindu byggðaáætlunarinnar sem við erum að ræða í dag er fjallað um fjarskiptamál í dreifbýli, eflingu náms með fjarskipta- og upplýsingatækni, fjarvinnslu, rafrænt samfélag, rafræna menntun og fleiri háleit markmið sem öll fela í sér gríðarleg tækifæri fyrir landsbyggðina og fyrir hinar dreifðu byggðir. Eins og aldrei verður of oft bent á erum við fyrst og fremst að tala um að veita íbúum þessara svæða jafnstöðu, jöfn tækifæri á við aðra íbúa Íslands til að nýta tækifærin til að skapa sér sín eigin tækifæri í gegnum menntun, fjarskiptin og þá endalausu möguleika sem samskiptabyltingin hefur opnað okkur nútímamönnum til að mennta okkur, jöfn tækifæri til að afla okkur upplýsinga, skapa okkur atvinnutækifæri og eiginlega vinna við hvað sem er, að heiman að hluta. Það opnar svo sannarlega á búsetu fyrir utan suðvesturhornið eins og hugur æ fleiri stendur sem betur fer til að nýta sér. Þar er háhraðasamband við netið algjört grundvallaratriði.

Það er t.d. engin leið að sætta sig við það að ala upp börn og unglinga án þess að veita þeim aðgengi að almennilegri nettengingu. Það er partur af menntun, uppeldi og þátttöku barna og unglinga í nútímasamfélagi að hafa aðgengi að fyrsta flokks tengingum við netið og umheiminn til að þau megi nýta það til góðra hluta sér til bæði afþreyingar, upplýsingaöflunar og sjálfsmenntunar hvers konar. Internetið hefur náttúrlega fyrst og síðast opnað okkur öllum endalausa möguleika á því að afla okkur upplýsinga til símenntunar hvers konar og til að viða að okkur upplýsingum með býsna einföldum og tiltölulega ódýrum hætti. Menn gátu ekki einu sinni gert sér í hugarlund áður fyrr að okkur gæfist kostur á því á þessum tíma.

Það má líka benda á að fjarvinnsla á vegum hins opinbera hefur brugðist. Hv. þm. Kristján L. Möller spurði ráðuneytin að því á síðasta löggjafarþingi hvernig þeim málum væri háttað og í ljós kom að sá málaflokkur var í molum, hafði brugðist fullkomlega. Má segja að landsbyggðin hafi að hluta til verið svikin um þau fyrirheit sem henni voru gefin fyrir nokkrum missirum um þá möguleika sem fælust í fjarvinnslu og að hið opinbera mundi leggjast á sveifina og færa fjarvinnsluverkefni með mjög myndarlegum hætti út um byggðir til að það mætti verða einhvers konar undirstaða og lyftistöng fyrir frekari fjarvinnsluverkefni.

Við höfum rætt töluvert í dag um mikilvægi samgangna og að sjálfsögðu eru þær algjört lykilatriði til að byggðirnar styrkist og efli stöðu sína og að þar verði vörn snúið í sókn. Þar á eftir er upplýsingahraðbrautin orðin jafnmikilvæg og góðar akbrautir fyrir bíla og aðrar slíkar samgöngur. Það er ekki nóg í dag að leggja góða vegi. Fólk, hvort sem það hefur búsetu að hluta eða fullu í dreifbýli, sest ekki þar að í dag nema hafa aðgengi að fyrsta flokks háhraðatengingu. Það bara er þannig og því verður að sjálfsögðu ekkert snúið við. Við eigum að leggja fé og afl úr okkar sameiginlegu sjóðum, úr sjóðum okkar sameiginlegu fyrirtækja eins og Símanum, til að tryggja öllum þessa þjónustu. Þó að hún kosti útgjöld úr slíkum fyrirtækjum og sjóðum margborgar það sig og þetta er bara hluti af þjónustunni sem verður að veita í dag. Án hennar og án þessara tækifæra er ekki um að ræða jafnstöðu þegnanna eða jöfn tækifæri til að nýta sér þau endalausu færi sem upplýsingabyltingin hefur fært okkur.

Ég skora á yfirvöld að beita sér af fullu afli í því. Ég ætla ekki að fara út í umræðu um hlutverk Símans en hann er ríkisfyrirtæki, Síminn er í eigu þjóðarinnar, þjóðin hefur byggt upp þetta eitt voldugasta og ríkasta fyrirtæki á landinu og það á að sjálfsögðu að veita eigendum sínum þá þjónustu sem þeir þurfa hverju sinni. Við höfum byggt þetta glæsilega fyrirtæki upp til að það standi undir þeirri þjónustu sem nútíminn kallar á. Síminn á að vera milligönguaðili að því að veita öllum Íslendingum aðgengi að háhraðatengingum. Síðan eiga fyrirtækin sem ég nefndi hér áðan að sjálfsögðu að sjá um framkvæmdina. Við eigum að efla þau fyrirtæki, þau eru að brjóta í blað, veita mjög metnaðarfulla og fína þjónustu víða og það er mikilvægt að viðgangur þeirra verði áfram en að Síminn og hið opinbera verði milligönguaðili í málinu.

Við höfum rætt hérna um mikilvægi menntunarinnar og uppbyggingu framhaldsskólanna úti á landsbyggðinni, og háskólasetranna, þekkingar- og háskólanámssetranna. Í því samhengi vil ég skora á yfirvöld að beita sér fyrir því að með sama hætti og byggð hafa verið háskólasetur, þekkingarsetur Þingeyinga á Húsavík, háskólasetur fyrir Austurland á Egilsstöðum og þekkingarsetur á Ísafirði, verði fjarnámsmiðstöðvunum á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi vestra breytt í sömu veru. Ég vil að þar verði til öflug háskólasetur og að símenntunarstöðvarnar og fræðslunetin verði efld með auknu fjármagni þannig að þau standi undir því að verða fyrsta flokks háskóla- og þekkingarsetur. Þetta er mjög góð þróun og henni ber að fylgja eftir af fullum krafti. Það er mikilvægt að staðið sé við bakið á því starfi sem þar er unnið. Litlu mátti muna fyrir ári að illa færi fyrir sumum fræðslunetunum þar sem átti að halda aftur af fjárframlögum til þeirra. Það hefði þýtt gríðarlegan niðurskurð á starfinu. Þau veita íbúum á stórum svæðum aðgengi að glænýjum tækifærum og miklum möguleikum í gegnum aukna menntun, aukna skólagöngu, án þess að fólk þurfi að flytja tímabundið eða alveg til höfuðborgarinnar eða annarra þéttbýlisstaða sem bjóða upp á slíkt nám. Menn geta stundað nám sitt í heimabyggð sem er algjört grundvallaratriði fyrir nútímabyggðastefnu og það helst að sjálfsögðu fullkomlega í hendur við aðgengi að háhraðatengingum og internetinu eins og ég gat um áðan. Allt spilar þetta saman.

Korterið er fljótt að líða og tími minn að verða búinn í þessari fyrri ræðu minni við þessa umræðu. Ég vildi varpa því fram að lokum að ég held að það sé mjög mikilvægt að næst beinum við sjónum okkar enn frekar að fullorðinsfræðslunni, hún verði skilgreind upp á nýtt, efld verulega og dregin saman í eitthvað sem kallast mætti framhaldsskóli fyrir fullorðna. Það er fráhrindandi fyrir fullorðið fólk að fara inn í framhaldsskólana. Það er bara eðlilegt, þar eru yngri kynslóðir, þetta eru unglingaskólar. Öldungadeildirnar eru að mörgu leyti liðnar undir lok, markaðurinn mettaðist o.s.frv. Ég held að það væri mjög gagnlegt að stofnsetja eftir ítarlega skilgreiningu framhaldsskóla fyrir fullorðna sem tengdist fræðslunetunum, háskólasetrunum og menntasetrunum öllum úti um hinar dreifðu byggðir og að ríkisvaldið kæmi að rekstri slíks framhaldsskóla með sama hætti og annarra framhaldsskóla í landinu. Það vantar þennan miðpunkt og þessa kjölfestu í fullorðinsfræðsluna.

Allir vita að það háir mjög mörgum hlutum landsbyggðarinnar eins og tölur sýna hve einsleit samsetning á vinnuaflinu er víða og það vantar meiri breidd í það. Við þurfum fyrst og fremst að veita því fólki sem þar er fyrir aðgengi að frekari menntun með styttri námsbrautum án þess að það þurfi að rífa sig upp til að flytja í burtu eða að setjast á skólabekk í skólum sem eru í raun og sanni ungmennaskólar, eðlilega. Þess vegna þarf að setja á stofn slíkan framhaldsskóla fyrir fullorðna. Ég legg þá hugmynd inn í umræðuna hérna í lokin og mun ræða hana miklu betur í síðari ræðu minni og síðar á þinginu í vetur. Ég held að þetta sé eitt af mikilvægustu verkefnum okkar á næstunni, þ.e. að veita fólki með stutta skólagöngu nýtt tækifæri til náms.