131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi.

211. mál
[17:33]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, sem er 211. mál þingsins á þskj. 213.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipana Evrópuráðsins.

Meginmarkmið tilskipunarinnar um fjármálasamsteypur er að setja lágmarksákvæði í lög og reglur sem lúta að eftirliti með fjármálasamsteypum, en fjármálasamsteypur eru samstæður félaga sem hafa veruleg umsvif á banka- og verðbréfasviði annars vegar og vátryggingasviði hins vegar. Meginmarkmiðin með eftirliti með fjármálasamsteypum eru eftirfarandi:

Koma í veg fyrir að unnt sé að nota sama fjármagnið oftar en einu sinni, hvort sem um er að ræða eigið fjármagn eða annars konar fjármagn, til þess að uppfylla mismunandi eiginfjár- og gjaldþolskröfur innan fjármálasamsteypu.

Gera kröfu um lágmarkseiginfé/gjaldþol í samræmi við viðurkenndar útreikningsaðferðir sem unnt er að nota við að mæla eiginfjárkröfur og gjaldþolskröfur í fjármálasamsteypu og til þess að gera sér grein fyrir fjárhagslegri stöðu fjármálasamsteypunnar.

Gera kröfur til fjármálasamsteypu um að hún setji upp innra eftirlit til að fylgjast með, mæla og stýra viðskiptum innan samstæðunnar annars vegar og áhættusamþjöppun hins vegar.

Tryggja eftirlit með fjármálasamsteypu í heild og samvinnu eftirlitsaðila.

Tryggja sambærilegt eftirlit með fjármálasamsteypum sem eru með höfuðstöðvar eða yfirstjórn utan Evrópska efnahagssvæðisins, en starfa engu að síður innan svæðisins.

Tilskipunin verður innleidd með þessu frumvarpi og nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur. Í dag er engin fjármálasamsteypa starfandi hér á landi sem fellur sjálfkrafa undir ákvæði tilskipunarinnar.

Tilskipunin um slit lánastofnana felur í sér að endurskipulagning fjárhags og slit fara einvörðungu fram í því landi þar sem lánastofnunin hefur skráðar höfuðstöðvar og gilda lög heimaríkisins að meginstefnu um fjárhagslega endurskipulagningu og slit. Þetta er í samræmi við aðra skipan sem kveðið er á um í bankalöggjöf Evrópusambandsins um starfsleyfi og eftirlit með fjármálastofnunum.

Tilskipunin felur í sér að úrskurður lögbærs yfirvalds um heimild lánastofnunar, sem rekur útibú í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðinu, til að leita greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða um slit hennar hefur áhrif á öllu svæðinu, þ.e. tekur bæði til lánastofnunarinnar og útibúa hennar. Jafnframt er gert ráð fyrir að löggjöf heimaríkis gildi að meginstefnu um endurskipulagninguna eða slitin, þ.e. löggjöf þess ríkis þar sem aðalstöðvar lánastofnunarinnar eru og þar sem starfsleyfi hennar er gefið út. Tilskipuninni er þannig ætlað að koma í veg fyrir að kröfuhöfum verði mismunað með því að mismunandi lög gildi um endurskipulagningu eða slit lánastofnunar annars vegar og útibúa hennar hins vegar.

Hæstv. forseti. Ég mæli með að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.