131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:10]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir að leggja fram þingsályktunartillögu um það að veggjaldið í Hvalfjarðargöng verði fellt niður. Það er enginn vafi á því að þessi göng eru ein stórkostlegasta samgöngubót sem við Íslendingar höfum fengið. Það hefur margoft sýnt sig og sannað á undanförnum árum. Þau hafa stytt leiðina vestur og norður um land verulega, aukið umferðaröryggi stórlega og eflaust sparað okkur mörg mannslífin frá því þau voru opnuð og einnig forðað því að fólk slasaðist mjög alvarlega og fengi jafnvel ævilöng örkuml. Þannig slys voru árviss viðburður á veginum fyrir Hvalfjörð á sínum tíma þegar hann var í fullri notkun. Þessi göng hafa líka styrkt byggðir, bæði á Vesturlandi og eflaust á Norðurlandi líka. Ég held að ekki leiki nokkur vafi á því. Umferð um göngin er stöðugt að aukast.

Í könnunum sem gerðar hafa verið hefur komið fram að um 40% þeirra sem nota göngin eru af höfuðborgarsvæðinu, 40% eru af Vesturlandi og þar af koma um 18% frá Akranessvæðinu. Ég bý sjálfur á Akranesi og skil mjög vel þau sjónarmið að fólki þar og víðar á Vesturlandi finnist ósanngjarnt að það þurfi að bera hitann og þungann af því að greiða niður þessi mjög svo nytsömu og góðu mannvirki. Það eru mjög skiljanleg sjónarmið.

Hins vegar er ég svolítið hræddur við það að afnema hreinlega gjöldin í þessi göng, ekki það að ég sé á móti þessum röksemdum, alls ekki. Það má ekki skilja orð mín svo. Hins vegar óttast ég að það muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir svona hugmyndir í framtíðinni, þ.e. að við förum út í mikilvægar samgöngubætur á miklum samgönguæðum, brýnar samgöngubætur, í upphafi með það fyrir augum að samgöngumannvirkin verði greidd niður með veggjöldum en eftir örfá ár komi upp þær raddir að ríkið taki við öllum pakkanum. Þetta mundi draga úr trúverðugleika slíkra framkvæmda í framtíðinni og þá jafnframt kannski vilja ríkisvaldsins til þess einmitt að styðja slíkar hugmyndir. Ríkisvaldið mundi eðlilega óttast að fá þennan skuldahala í hausinn eftir nokkur missiri hvort eð er. Það mundi síðan aftur bitna á öðrum vegaframkvæmdum sem mundu annars gagnast hinum dreifðu byggðum landsins, vegaframkvæmdum sem erfiðara væri að greiða niður með svona veggjöldum en væru engu að síður nauðsynlegar og mikilvægar til að viðhalda byggð í landinu. Það tel ég á margan hátt mjög nauðsynlegt.

Mér dettur til að mynda í hug ein framkvæmd sem ég tel að við ættum alvarlega að íhuga að fara út í og greiða þá niður með vegtollum með svipuðum hætti og við höfum verið að greiða niður Hvalfjarðargöngin. Ég er að tala um að klára að breikka Reykjanesbrautina. Mér skilst að til að klára það verkefni, frá Hafnarfirði og alla leið út í Reykjanesbæ, þurfi eitthvað á bilinu einn og hálfan til tvo milljarða. Þarna er mikil umferð og ég tel vel skoðandi að drífa í að klára þessa miklu samgöngubót núna. Við höfum þegar hafist handa og erum komin mjög vel áleiðis fyrir peninga úr ríkissjóði en við ættum þá að fara út í það núna að klára þetta dæmi með svona gjaldtöku. Það væri vel athugandi því þetta er mikið öryggismál. Af þessu er mikið hagræði, ekki síst þjóðhagslegt.

Hvað varðar hins vegar Hvalfjarðargöngin og gjöldin í þau tel ég alveg skilyrðislaust að hið opinbera ætti strax að fella niður virðisaukaskattinn af veggjaldinu í göngin. Það finnst mér alveg fáránleg skattlagning og mjög erfitt að réttlæta hana því ríkið ber engan kostnað af þessum göngum. Langt í frá. Sennilega hafa þau sparað ríkinu mjög miklar fjárhæðir, t.d. í viðhaldi á veginum fyrir Hvalfjörð, kostnaði við að halda þeim vegi opnum, t.d. yfir vetrartímann, og ekki síst kostnaði sem hlaust af slysum sem urðu þar áður fyrr.

Þeir sem aka í gegnum Hvalfjarðargöngin í dag borga bifreiðagjöld sín en einnig gjöld sem eru m.a. á eldsneyti sem þeir eyða þegar ekið er um göngin. Hvers vegna í ósköpunum ætti ríkið að leggja 14% virðisaukaskatt á gjaldið í göngin? Það kemur fram í þingsályktunartillögu hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar, að frá því að göngin voru opnuð sumarið 1998 er ríkið búið að hala inn 700 millj. kr. í virðisaukaskattstekjur af veggjaldi. Þetta eru miklir peningar sem hafa þá m.a. verið teknir út úr hagkerfum byggðanna, t.d. á Vesturlandi. Ef við reiknum gróft, t.d. ef 18% af umferðinni um göngin er frá Akranesi, þá má varlega áætla að hlutur Akurnesinga eingöngu sé u.þ.b. 100–130 millj. kr. af þessum ósanngjarna skatti. Þennan skatt á að fella niður strax. Hæstv. samgönguráðherra ýjaði að því í þingræðum í fyrravor að menn væru að skoða þetta, helst að lækka virðisaukaskattinn en hugsanlega að fella hann niður. Hann lét í það skína, eða mér fannst a.m.k. að þar væri um að ræða undirbúning að stjórnarfrumvarpi um breytingu á virðisaukaskattslögum þar sem þetta yrði framkvæmt.

Ég vil bara fá að nota tækifærið nú, hæstv. forseti, til að hvetja ríkisstjórnina til að fara strax í þetta, drífa þetta í gegn og afnema þennan ósanngjarna skatt og sjá til þess að slíkur skattur verði ekki innheimtur af svona veggjöldum í framtíðinni. Það væri fyrsta skrefið. Þetta mundi eflaust líka leiða til þess að umferð um Hvalfjarðargöngin mundi enn aukast. Í kjölfar þess mundu tekjur Spalar aukast og þær tekjur væri þá annaðhvort hægt að nota til þess að greiða skuldirnar sem hvíla á göngunum í dag niður á skemmri tíma en við sjáum fyrir okkur núna eða þá hreinlega að lækka veggjöldin. Hvort tveggja gæti verið niðurstaðan.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá geld ég svolítinn varhuga við því að fella göngin alfarið niður, vegna þess að mér finnst velgengni Hvalfjarðarganganna — en margir voru í upphafi mjög gagnrýnir á að sú mikla framkvæmd mundi ganga upp — hafa verið svo stórkostleg að ég tel að við ættum hiklaust að íhuga þá hugmynd að endurtaka þennan leik hvað varðar mikilvægar samgöngubætur á stórum umferðaræðum á landinu og einkum og sér í lagi á Suðvesturlandi þar sem virkilega þarf að taka til hendinni, t.d. eins og ég nefndi áðan á Reykjanesbraut, hugsanlega á Hellisheiði og líka með lagningu svokallaðrar Sundabrautar.