131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:53]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi nota tækifærið og spyrja hæstv. samgönguráðherra einnar spurningar. Hann talaði skýrt um það sem hann fór yfir, hvaða kostir væru í stöðunni og hvað væri til skoðunar. En spurning mín lýtur að umferðarörygginu, þ.e. þeirri staðreynd að umferð um Hvalfjarðargöng er þegar mjög mikil og mun örugglega halda áfram að vaxa á næstu árum, eins og göngin geta annað. Það hljóta náttúrlega að vera einhver takmörk fyrir því hvað göngin geta borið mikla umferð. Spurningin sem ég var að velta fyrir mér varðandi umferðaröryggið, að því gefnu að göngin dugi til fyrir umferðina á næstu árum og að því gefnu að menn komist að þeirri niðurstöðu að gjaldtakan geti jafnvel fallið niður, án þess að ég sé neitt að gera því skóna með þessari spurningu: Telur hæstv. samgönguráðherra að eftir sem áður, vegna umferðarþungans í göngunum, þyrfti að vera til staðar eftirlitsskýli vegna öryggismála? Eða með hvaða hætti mundu menn tryggja að hægt yrði að bregðast við alvarlegu slysi í Hvalfjarðargöngum eða umferðarslysi? Það þarf ekki að vera alvarlegt til að úr verði umferðarhnútur. Þá er ég að velta fyrir mér eftirlitsskýli eða eftirliti sem gæti snarlega stöðvað umferð í göngin úr báðum áttum. Hvernig hefur það verið hugsað í framtíðinni?