131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:56]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki hugleitt það í smáatriðum sem hv. þm. spyr um, þ.e. þegar hætt verður að innheimta — það liggur fyrir að það kemur að þeirri stund að ekki verður innheimt gjald, þegar búið er að greiða upp stofnkostnaðinn. Í mínum huga er ljóst að ekki verður hægt að hafa göngin eftirlitslaus. Það sé ég ekki að geti orðið.

Jarðgöngin eru þannig rekin að þau þurfa heilmikið eftirlit og það er óhjákvæmilegt að þar verði varðmenn, hvar sem þeir verða staðsettir, sem geta gripið inn í til að loka göngunum og tekið ákvarðanir ef óhapp verður og nauðsynlegt að efna til aðgerða til hjálpar þeim sem verða fyrir óhappi í göngunum.

Eins og fram kom fyrr hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fylgir heilmikill rekstrarkostnaður svona jarðgöngum. Það ber að líta til þess. En þetta er svar mitt.