131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[18:57]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að halda því til haga sem hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, vék að áðan, að það var allt í óvissu um það á sínum tíma hvort hægt yrði að ráðast í Hvalfjarðargöng. Þegar ég varð samgönguráðherra árið 1991 hafði Alþingi nýverið samþykkt lög um Hvalfjarðargöng, að þau yrðu reist á þeim forsendum að einkaaðilar stæðu fyrir byggingu ganganna og undir þeim yrði staðið með veggjöldum. Eins og sumir hv. þm. muna ef til vill var samningur við hluthafa með þeim hætti að við töldum hann óviðunandi. En nýir samningar tókust við Spöl um gerð og rekstur ganganna sem síðan hefur verið í gildi. Eins og hv. þingmenn vita voru einmitt mjög snarpar umræður á Alþingi um það hvort skynsamlegt væri að ráðast í þessi göng og varað við því að illa færi.

Það er ljóst í mínum huga að ef ekki hefði verið ráðist í þessi göng á einkagrundvelli, á þeim forsendum að staðið yrði undir þeim með veggjöldum, þá væru göngin ekki komin enn þann dag í dag. Það hefði aldrei orðið samkomulag um að leggja til hliðar þá fjármuni sem þurfti til að ráðast í gerð ganganna og draga frá öðrum framkvæmdum í landinu.

Það er rétt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði áður, að göngin fyrir vestan hafa skipt sköpum. Þingflokkur Alþýðuflokksins lagðist þó á sínum tíma gegn því að göngin yrðu látin ná til Súgandafjarðar, eins og hv. þm. veit. Það hefur ævinlega staðið mjög mikill styr um það hvort í fyrsta lagi væri rétt að fara í vegabætur eins og jarðgöng og í öðru lagi hvernig eigi undir þeim að standa.

Þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson fór að tala um það áðan að ekki væri sanngjarnt að þeir á Vesturlandi þyrftu að greiða bæði veggjald fyrir að fara Hvalfjarðargöng og síðan Sundabraut og endurtók það, olli það nokkurri undrun hjá mér því við höfum áður farið yfir það í þessum sal að í samningnum um Hvalfjarðargöng er sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að innheimta veggjald af öðrum framkvæmdum sem ráðist yrði í á leiðinni frá Hvalfirði að hafnarmannvirkjum í Reykjavík. Það er því alveg ljóst að það getur ekki til þess komið meðan veggjald er tekið af Hvalfjarðargöngum að veggjald verði tekið af Sundabraut. Þetta er öldungis ljóst í þeim samningum sem fyrir liggja. Ef ráðist yrði í einhverja slíka framkvæmd og menn hygðust taka veggjald yrði því að fara í sérstaka samninga um það, sem ég hef ekki trú á að gert verði.

Ég vil í annan stað taka fram vegna þeirra orða sem Guðjón A. Kristjánsson sagði áðan að það er einmitt veruleg spurning um það hvort senn líði ekki að því að Hvalfjarðargöngin eins og þau eru nú anni ekki þeirri umferð sem um þau fer og þá skapist hættuástand í göngunum og tafir, og að menn verði áður en varir að fara að hugsa fyrir því að fara í önnur göng undir Hvalfjörð því ljóst er að ekki eru forsendur til að breikka þau göng sem nú eru, ódýrara yrði að fara í önnur göng.

Menn geta auðvitað velt því fyrir sér hvort líklegt sé að á sama tíma og menn eru að velta fyrir sér öðrum Hvalfjarðargöngum, fallist ríkissjóður á að taka þá 5 milljarða sem eftir eru af byggingarkostnaði ganganna á sig. Sú leið er auðvitað ekki fýsileg. Þeir menn sem mest eiga undir þessum göngum hljóta þess vegna að fara mjög gætilega í þá umræðu að ekki verði við það staðið að undir göngunum verði risið með veggjaldi.

Ég vil líka taka það fram, eins og kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að norðan lands gera menn sér grein fyrir því að hagkvæmni jarðganga undir Vaðlaheiði er veruleg, en menn átta sig líka á að það mun dragast úr hömlu að í slík göng verði ráðist ef menn ætlast til þess að undir þeim verði staðið eingöngu af fé úr Vegasjóði. Þess vegna er þrýstingur á að samkomulag megi takast milli ríkis og Norðlendinga um hvernig staðið verði að byggingu þeirra ganga þegar þar að kemur og nauðsynlegum undirbúningi er lokið og hvort möguleikar séu t.d. á því að úr ríkissjóði yrði greiddur t.d. þriðjungur kostnaðar við jarðgöngin, kannski meir, og hafa menn þá í huga og til hliðsjónar það verð sem menn greiða fyrir að fara í gegnum Hvalfjarðargöngin.

Þá væri eðlilegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tæki þetta mál upp með mikilli varkárni eins og hann gerði, vegna þess að á hans tíma sem samgönguráðherra var svo komið að fyrirsjáanlegt var að menn yrðu að velta fyrir sér hvort nauðsynlegt yrði að standa undir vegaframkvæmdum einmitt með veggjaldi. Þegar ég tók við embætti samgönguráðherra lá fyrir ítarleg skýrsla um þau efni og auðvitað, eins og alltaf þegar ný mál eru tekin upp, var ýmislegt í þeim niðurstöðum sem menn áttu erfitt með að kyngja, en brýnasta verkefnið eins og það horfði við mér var að ljúka því verki sem þá hafði verið unnið af forvera mínum í sambandi við Hvalfjarðargöngin. Það var brýnasta verkefnið.

Þess vegna er ég mjög ánægður yfir því að hæstv. samgönguráðherra skuli nú hafa tekið málið upp að nýju til þess að reyna að glöggva sig á hvort hægt verði að nota veggjald í vissum tilvikum í framtíðinni til þess að greiða fyrir miklum framkvæmdum.

Það er auðvitað rétt að við förum á fámenna staði. Ef við horfum til Vestfjarða, Súgandafjarðar, Flateyrar og Ísafjarðar, munar ekki mikið um veggjald sem þar yrði innheimt. Við getum sagt hið sama um Eyjafjörð, milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, vegna þess að þar er engin hjáleið. Á hinn bóginn sýnist okkur að ekki séu forsendur fyrir því að við ætlumst til þess að göng undir Vaðlaheiði sitji fyrir öðrum framkvæmdum nema að hluta til verði staðið undir þeim með veggjaldi og ég vil segja að sem mestum hluta af framkvæmdarkostnaði við þau göng.