131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[19:08]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki á hvað hv. þm. á við með því að ég hafi verið að andmæla því sem hæstv. samgönguráðherra sagði og að vera að snúa út úr því sem hann sagði. Samsæriskenning að þessu leyti fellur auðvitað um sjálfa sig vegna þess að ekki eru efni til hennar. Á hinn bóginn getum við auðvitað tekið upp umræður undir þessum dagskrárlið um veg að Gunnunesi og þar fram eftir götunum, en ég tel að ekki séu efni til þess og þess vegna sé rétt að halda Sundabraut fullkláraðri utan við það sem við ræðum hér.

Á hinn bóginn held ég að það sé alveg ljóst, hv. þm., að engin skynsemi er í því og engar forsendur að ætla að mæta auknum umferðarþunga eða meiri umferðarþunga um Hvalfjörð með því að leggja í kostnað við að reyna að breikka þau göng sem nú eru. Ég held að engum detti það í hug sem hefur velt málinu fyrir sér. Aftur á móti liggur það fyrir að til þess að mæta slíku yrði að fara í ný jarðgöng. Ég held að það sé alveg borðleggjandi. Ég sé ekki, herra forseti, að ástæða sé til að fara í einhverjar stælur út af því hér, það mun á sínum tíma koma í ljós hvor okkar hefur rétt að mæla í því. En að ætla að klastra upp á jarðgöng eins og hv. þm. var að gefa í skyn, er hvergi gert, einfaldlega vegna þess að það borgar sig ekki og er ekki arðvænlegt.