131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[19:10]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekki að tala um að klastra upp á þessi göng með nokkrum hætti. Ég veit hins vegar af því að menn hafa skoðað hugmyndir um að bora önnur göng við hliðina á þessum, en gera það í fleiri en einum áfanga þannig að það væri fyrst hægt að bæta úr þeim vanda sem er í göngunum, sem felst í því að það er einungis ein akrein upp úr göngunum að sunnanverðu. Þess vegna væri hægt að skipta kostnaði við þessi göng. Nú veit ég ekki hvort það er hagkvæmt og menn eiga auðvitað eftir að fara betur yfir það. En þær hugmyndir gengu ekki út á það að breikka göngin sem nú eru eða klastra með einhverjum hætti við það mannvirki, heldur að taka nýju göngin í áföngum. Meira veit ég svo sem ekki um það mál. Ég veit bara að þessar hugmyndir hafa verið ræddar.

Það er ekki hægt að slíta umræðuna um Sundabrautina úr samhengi við þetta, einfaldlega vegna þess að þetta ákvæði er í samningnum við Spöl. Þannig að ef menn ætla að fjármagna hana með veggjöldum, verður eitthvað að gerast hvað varðar samninginn við Spöl. Ég sé ekki að það þurfi að vera neinn óskaplegur ásteytingarsteinn ef menn fara í þá hluti með jákvæðum hætti. Ég veit að hjá Speli hafa menn einmitt velt fyrir sér þeim hlutum, leitað sér ýmissa upplýsinga erlendis frá og þekkingar á því hvernig samgöngumannvirki eru fjármögnuð með veggjöldum og eru örugglega tilbúnir til að taka þátt í því að finna lausnir sem gætu hentað hvað þetta allt saman varðar.