131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Veggjald í Hvalfjarðargöng.

75. mál
[19:12]

Flm. (Guðjón Guðmundsson) (S):

Herra forseti. Ég vil bara í lokin þakka fyrir ágætar og málefnalegar umræður um þessa tillögu og ágætar undirtektir.

Það kom fram sá ótti hjá hv. þingmönnum Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Steingrími J. Sigfússyni og reyndar Halldóri Blöndal líka um að ef gjöldin yrðu felld niður í Hvalfjarðargöngin kæmi það í veg fyrir að sú aðferð yrði notuð við aðrar stórframkvæmdir á næstu árum. Ég minni þá á í því sambandi að tillaga mín gengur út á að fella niður eða lækka verulega veggjaldið í Hvalfjarðargöng. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson nefndi í þessu sambandi Reykjanesbrautina. Ég minni á að það virðist engum manni hafa dottið í hug að leggja veggjöld á þá framkvæmd.

Eini vegurinn sem nefndur hefur verið er Sundabrautin en eins og kom fram í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra um daginn yrði hann að hluta til einkaframkvæmd. Þess vegna er ég ánægður með það hjá fyrrverandi samgönguráðherra, hv. þm. Halldóri Blöndal, að það sé ákvæði um það í Hvalfjarðargangasamningnum að ekki verði um tvísköttun að ræða á þeirri leið.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi að sú framkvæmd, Hvalfjarðargangaframkvæmdin, hefði verið á ákveðnum forsendum sem er auðvitað alveg rétt. Hún var á þeim forsendum að menn greiddu veggjald, en mér finnst einfaldlega að síðan hafi forsendur breyst með svipuðum framkvæmdum og ríkið hefur verið að fara í, Fáskrúðsfjarðargöng, væntanleg Siglufjarðargöng og Reykjanesbraut, sem kosta álíka og Hvalfjarðargöngin. Þarna verða ekki tekin nein veggjöld.

Mér finnst eins og ég sagði í ræðu minni það ákveðið brot á jafnræði þegnanna að maðurinn sem býr í Mosfellsbæ og vinnur í álverinu á Grundartanga noti 350 þús. kr. af árlegum tekjum sínum til að borga í göngin, á sama tíma og maðurinn á Fáskrúðsfirði sem kemur til með að vinna í álverinu á Reyðarfirði borgar ekki eina krónu. Það er einfaldlega að mínu mati ósanngjarnt og á því þarf að taka.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi einnig að það væri mikill rekstrarkostnaður af svona göngum. Það er auðvitað hárrétt og það verður væntanlega líka mikill rekstrarkostnaður á öðrum göngum, Fáskrúðsfjarðargöngum og Siglufjarðargöngum þar sem ekki á að rukka. Hann nefndi líka að hann vissi ekki hvort eða hvenær þessi göng hefðu orðið að veruleika ef ekki hefði verið ráðist í þau með þeirri aðferð sem gert var. Það er auðvitað alveg hárrétt að því getur enginn svarað.

Hv. þm. Halldór Blöndal bætti um betur og taldi fullvíst að göngin hefðu ekki orðið að veruleika og að ekki hefði verið lagt fé í þá framkvæmd ef ekki hefði verið ráðist í þau með þessum hætti á sínum tíma. Ég er ekki sammála því. Ég er alveg viss um að Hvalfjarðargöng hlytu að hafa orðið á undan Fáskrúðsfjarðargöngum og væntanlegum Siglufjarðargöngum í röðinni þegar kom að stórframkvæmdum. Það er ekki spurning. Þess vegna er ég ósammála þessum ágætu hv. þingmönnum Norðausturkjördæmis að Hvalfjarðargöngin hefðu ekki komið til greina ef þau hefðu ekki verið gerð með þessum hætti.

Ég endurtek svo að sparnaður ríkisins af þessum göngum er stórkostlegur. Göngin hafa sparað ríkinu mjög miklar framkvæmdir í endurbótum og viðhaldi á Vesturlandsveginum og mér finnst að það megi að hluta til mæta því sem ríkið á hjá Speli. Einnig tel ég alveg sjálfgefið að virðisaukinn falli niður þegar skatturinn hefur náð þeirri upphæð sem felld var niður af virðisauka við framkvæmdina, það voru 937,6 milljónir. Nú þegar eru komnar talsvert á áttunda hundrað milljónir í virðisaukaskatt af umferðinni og nálgast því óðum að þetta jafnist út.

Ég þakka aftur kærlega fyrir þessa ágætu umræðu og vona að málið fái vandaða umfjöllun í samgöngunefnd þingsins.