131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytt fyrirkomulag útbýtingar þingskjala.

[13:32]

Forseti (Guðmundur Árni Stefánsson):

Forseti vill bjóða hv. þingmenn velkomna til starfa á nýjan leik eftir kjördæmaviku.

Eftir umræður í forsætisnefnd og að höfðu samráði við þingflokkana hefur verið ákveðið að hætta útbýtingu þingskjala á borð þingmanna í þingsalnum. Þess í stað verða ný þingskjöl látin liggja frammi í hliðarherbergi, svokölluðu blaðamannaherbergi, þar sem dagskrárskjölin, þ.e. skjöl í þeim málum sem eru á dagskránni, eru líka látin liggja frammi, þingmönnum til hagræðis.

Um útbýtinguna munu því eftirleiðis gilda þessar reglur:

Forseti les tilkynningu um útbýtingu þingskjala í upphafi fundar, eða síðar á fundi eftir því sem tilefni eru til, eins og verið hefur, sbr. 8. og 53. gr. þingskapa.

Í öðru lagi liggja þingskjöl sem útbýtt er á fundi frammi á sérstöku sérmerktu borði í hliðarsal.

Í þriðja lagi verður dagskrám þingfunda útbýtt á borð þingmanna í upphafi fundar, svo sem verið hefur.

Í fjórða lagi verður með dagskránni lagður á borð þingmanna útbýtingarlisti með skrá yfir þau skjöl sem útbýtt er við upphaf fundarins. Listi yfir þingskjöl sem útbýtt er eftir að þingfundur hefst, þ.e. síðar á fundinum, fylgir með útbýtingarlista við upphaf fundar næsta dag.

Í fimmta lagi ákveður forseti hverju sinni ef sérstakar ástæður eru fyrir því hvort tilteknum þingskjölum — eða öðru efni — skuli útbýtt í þingsalnum.

Forseti vill jafnframt geta þess að starfsfólk skrifstofunnar og þingverðir munu eftir því sem unnt er aðstoða þingmenn við að finna skjöl sem útbýtt hefur verið á fundi, dagskrárskjöl funda eða önnur þingskjöl. Eins er ástæða til að minna hv. alþingismenn á að á forsíðu vefs Alþingis er birtur listi yfir ný þingskjöl og þar er líka unnt að skoða þau skjöl í heild sinni.