131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Umsvif varnarliðsins.

[13:43]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. málshefjandi sagði, það er gaman að sjá hæstv. utanríkisráðherra svona hressan á meðal okkar og ég hlakka til þess að eiga við hann ýmsar orrustur í nánustu framtíð.

Ég vil líka þakka hv. málshefjanda fyrir að hafa tekið þetta mál hér upp. Það er með ólíkindum að hlusta á fregnir og lesa tíðindi af varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Aftur og aftur er það staðhæft í fjölmiðlum að verið sé að flytja í burtu varnaratgervi, vopn og jafnvel mannafla og að fyrirhugaður sé verulegur niðurskurður á mannafla og liðssafnaði á Keflavíkurflugvelli.

Það verður að hreinsa loftið með einhverjum hætti og mér fannst hæstv. utanríkisráðherra ekki gera það áðan. Hann gerir það e.t.v. í svari sínu á morgun en það liggur fyrir að óvissan er mikil, og hún fer vaxandi. Það eru stöðugar fregnir af því að verið sé að flytja vopn í burtu, og herflugvélar. Það gengur ekki að Bandaríkjamenn taki einhliða ákvarðanir. Við höfum gert ákveðið tvíhliða samkomulag við Bandaríkin. Þessari ríkisstjórn hefur ekki auðnast að ná fram þeirri bókun sem skýrir þann samning út í ystu æsar en það er auðvitað partur af fullveldi hverrar þjóðar að hafa nægjanlegar loftvarnir. Menn hljóta að setja spurningarmerki við það hvort svo sé í dag.

Þær fregnir t.d. sem hafa verið staðfestar, að herþotur fljúgi án vopna, minna óneitanlega á það þegar þessi ríkisstjórn ætlaði sér að efla öryggi á vegum með því að setja þar upp sérstakar pappalöggur. Því miður duga Íslendingum ekki neinar pappavarnir eða pappaþotur. Við þurfum að fá skýr svör í þessu, og einhliða ákvarðanir af hálfu Bandaríkjamanna ganga ekki. Þessi ríkisstjórn verður að taka fastar á í þessu efni. Það verður að skýra málið.