131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Umsvif varnarliðsins.

[13:46]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir góðar óskir til hæstv. utanríkisráðherra með að vera kominn aftur til starfa.

Enn og aftur heyrum við af niðurskurði hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli án þess að það virðist vera á nokkurn hátt í takti við samninga milli íslenska ríkisins og bandarísku ríkisstjórnarinnar. Þetta virðist vera eitthvað sem er bara að gerast, eins og menn segja, og enginn getur gert við vegna þess að Bandaríkjastjórn sé að skera niður fjármuni og því hafi þetta í raun ekkert með samninginn um varnarsamstarfið milli Íslands og Bandaríkjanna að gera.

Við sem búum á Suðurnesjum horfum oft á tíðum á þetta í forundran og setjum þetta að sjálfsögðu í atvinnulegt samhengi. Sveitarstjórnarmenn hafa lengi leitað skýringa og svara hjá hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra um hvað þarna sé að gerast. Ítrekað höfum við óskað eftir því að fá fund með þessum tveimur hæstv. ráðherrum en engin formleg viðbrögð hafa fengist. Í raun leyfi ég mér að kalla þetta lítilsvirðingu við þá sveitarstjórnarmenn sem hafa tekið að sér að vinna á vettvangi sveitarstjórna á Suðurnesjum að ekki skuli takast að ná fundi þessara tveggja hæstv. ráðherra til að ræða þau alvarlegu mál sem þarna eru í gangi.

Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. utanríkisráðherra vegna þeirra upplýsinga sem fram komu hér að hann eigi fund með Colin Powell 16. nóvember hvort hann sé tilbúinn til þess í framhaldi af þeim fundi að beita sér fyrir einhvers konar samráði og samvinnu við sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum til að mæta þeim vanda sem þegar er orðinn og til að mæta því sem hugsanlega getur komið upp í viðræðum þeirra tveggja, því við verðum með einhverjum hætti að viðurkenna vandann í atvinnulegu tilliti sem niðurskurðurinn í varnarstöðinni þýðir fyrir Suðurnes og ráðast í einhverjar mótvægisaðgerðir á svæðinu.