131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Umsvif varnarliðsins.

[13:48]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð annarra þingmanna sem hafa fagnað komu hæstv. utanríkisráðherra til þings á nýjan leik. Ég fagna því einnig sem fram kom í svari hans að hann muni innan tíðar hitta Colin Powell að máli vegna þessa alvarlega máls sem upp er komið.

Mér datt reyndar í hug þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson steig í pontu áðan að öðruvísi mér áður brá því ég veit ekki betur en hann sé gamall herstöðvarandstæðingur (Gripið fram í.) en hefur lýst því yfir hversu alvarlegt málið er. Ef ég kann hrafl úr stefnu hans ágæta flokks þá veit ég ekki betur en þeir hafi ályktað að allar loftvarnir skuli fara héðan í brott þannig að viðhorf hv. þm. er greinilega að breytast. En ég fagna því að fundurinn verði haldinn 16. nóvember næstkomandi.