131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Umsvif varnarliðsins.

[13:49]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég, sem og aðrir sem hafa tekið til máls, fagna því að hæstv. utanríkisráðherra er mættur til leiks og mun taka að fullu þátt í þingstörfum.

Varðandi það mál sem hér er til umræðu um fækkun í herafla og brottkvaðningu herbúnaðar frá Keflavíkurflugvelli sem hefur verið í fréttum undanfarið vil ég í fyrsta lagi árétta þá skoðun mína og flokks míns, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að við teljum að Ísland eigi fyrst og fremst að vera boðberi friðar og það sé ekki hlutverk okkar að vera með erlendan her. Þess vegna sé það í sjálfu sér fagnaðarefni hvað það varðar að herinn fari.

Hitt er líka alvarlegt ef íslenskir ráðamenn berja stöðugt höfðinu við steininn og sjá ekki hvað er að gerast af hálfu Bandaríkjamanna með brottflutning hersins héðan. Ljóst er að grípa þarf til sérstakra aðgerða á Suðurnesjum hvað varðar atvinnumál því að sjálfsögðu hefur vera hersins skaffað atvinnu þar. Það að hann skuli vera að fara héðan í áföngum með tæki sín og tól og fjöldi manns missir atvinnu sína í kjölfarið á einmitt að kalla á ábyrgð af hálfu stjórnvalda um að viðurkenna það, sætta sig við það, fallast á það og fagna því, en jafnframt að byggja upp og koma til móts við íbúana með þátttöku í uppbyggingu á öðrum atvinnuvegi sem er Íslandi miklu frekar sæmandi.