131. löggjafarþing — 16. fundur,  2. nóv. 2004.

Breytingar á stjórnarskrá.

9. mál
[14:13]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór yfir efni þessarar tillögu að nokkru leyti. Ég ætla hins vegar að gera að aðalumtalsefni þau atriði tillögunnar sem eru ný, má segja, og komu ekki fram í fyrri tillögu sem Samfylkingin lagði fram á síðasta þingi og var að mörgu leyti svipaðs efnis. Í báðum tillögunum er þó um að ræða að gerð sé heildarendurskoðun á stjórnarskránni og áhersluatriði okkar talin upp í tillögunni.

Ég held að í þeirri tillögu sem við sjáum hér og þingflokkur Samfylkingarinnar leggur fram komi fram öll þau helstu atriði sem mikilvægt er að skoða í tengslum við endurskoðun á stjórnarskránni. Ég vil líka segja í upphafi að ég er ekki þeirrar skoðunar að brýnasta verkefnið þar sé að endurskoða forsetaembættið og hvort ástæða sé til að leggja það niður. Orðræðan frá því í sumar í tengslum við fjölmiðlamálið og allur ferill þess máls hefur þvert á móti styrkt mig í þeirri skoðun minni að ástæða sé til að halda forsetaembættinu úti.

Ég ætla að koma aðeins inn á c-, b- og g-liði tillögunnar. Í fyrsta lagi ætla ég aðeins að fjalla um að við leggjum hér til að eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdarvaldinu sé styrkt, m.a. með því að stjórnarskrá tryggi að sérstakar eftirlitsnefndir séu settar á fót sé þess krafist af þriðjungi þingmanna. Við þekkjum það að skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar eins og hún er í dag er gert ráð fyrir því að meiri hluti þingmanna geti krafist þess að settar verði á fót slíkar nefndir. Þetta ákvæði hefur alls ekki orðið grundvöllur þess virka þingeftirlits sem því er ætlað að vera samkvæmt stjórnarskránni og eins og reyndin hefur verið í nágrannaríkjum okkar þar sem eftirlitsnefndir á borð við þær sem 39. gr. stjórnarskrárinnar heimilar hafa verið mjög mikilvægur lýðræðisgrundvöllur. Slíkar nefndir hafa oft orðið rótin að því að kafað er djúpt ofan í einstök mál sem upp koma og jafnvel eftir langa vinnu slíkra nefnda kemur til þess að ráðherraábyrgð verður virk og jafnvel ábyrgð annarra embættismanna í kerfinu.

Það hefur dregið mikinn dilk á eftir sér að mínu mati að hafa nefndirnar ekki virkar hér á landi og m.a. gert það að verkum að þingeftirlit er mjög lítið virkt hér miðað við það sem gerist í nágrannalöndunum. Við höfum jú ýmis úrræði í stjórnarskrá og í lögum. Alþingi getur sinnt eftirlitshlutverki sínu t.d. með skýrslubeiðnum, með fyrirspurnum til ráðherra, með því að krefja ráðherra svara í utandagskrárumræðum o.s.frv. og við höfum auk þess styrkt þetta eftirlit m.a. með stofnun embætta umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar.

Eigi að síður er það þannig að á meðan þingið er eini aðilinn sem getur farið af einhverri dýpt ofan í mál sem upp koma í tengslum við hugsanleg embættisafglöp eða vanrækslu t.d. ráðherra og meðan þingið gerir það ekki að kafa ofan í málið í formi þess að setja upp slíka eftirlitsnefnd fer málið aldrei neitt lengra. Það er því engin tilviljun að mínu mati að ráðherraábyrgð hefur verið afskaplega lítið virk hér á landi miðað við Norðurlöndin t.d. og nágrannalöndin. Ráðherrar segja mjög sjaldan af sér á Íslandi og lögin um ráðherraábyrgð og landsdóm eru nánast dauður bókstafur í dag. Það er eitt af því sem er mjög mikilvægt að skoða líka í tengslum við endurskoðun á stjórnarskránni.

Í ljósi þess að það hefur ekki dugað til að meiri hluti þingsins geti sett á fót rannsóknarnefndir, meiri hlutinn sem hér situr hverju sinni hefur ekki haft vilja til þess að kafa ofan í slík mál, þá leggjum við til að það sé nóg að þriðjungur þingmanna krefjist slíkrar nefndar. Það sé þá meiri möguleiki til þess að Alþingi sem löggjafarstofnun geti sinnt eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu sem er mjög mikilvægur grundvöllur lýðræðisins.

Ég tel einnig að það væri rétt — það er reyndar ekki lagt til beint í þessari tillögu en ég tel að það væri eitt af því sem skoða þyrfti í tengslum við slíka endurskoðun — að breyta 39. gr. þannig að það væri ekki skilyrði að þingmenn ættu þar sæti. Þannig er það samkvæmt greininni eins og hún er í dag en t.d. í danskri lagaframkvæmd er hægt að skipa menn utan þings í slíkar nefndir, sérfræðinga, rannsóknardómara o.s.frv. Það teldi ég að væri mjög æskileg breyting og hef í hyggju að leggja fram frumvarp í þá veru.

Ég tel líka nauðsynlegt, herra forseti, að í þessu samhengi yrðu sett sérstök lög sem væru málsmeðferðarreglur um það hvernig meðferð mála skuli vera fyrir nefndum eins og 39. gr.

Við sáum það hér í stóra málinu í sumar þegar 26. gr. var til umfjöllunar, um málskot forsetans, að það vissi enginn hvernig ætti að framkvæma slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Það vantar í raun og veru allt kjöt á beinin með þessum greinum og það er sama með 39. gr. Danir settu sér slíkar reglur fyrir ekki svo löngu síðan, mig minnir að það hafi verið upp úr 1990. Það er heill lagabálkur sem kveður á um það hver staða manna sem koma fyrir slíka nefnd er, þeim er skylt að bera vitni, svipað og gildir þegar menn eru kallaðir fyrir dómstól. Það eru ekki sams konar reglur en má segja svipaðar reglur, þannig að það sé alveg skýrt málsmeðferðarkerfi sem tæki gildi þegar slík nefnd færi af stað. Ég tel að það vanti í okkar lög.

Ég vil líka nefna athyglisverða tillögu sem birtist hér varðandi mannréttindi í stjórnarskrá. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar er kannski með því nýlegra sem er í stjórnarskránni, hann var endurskoðaður 1995 en byggist að mörgu leyti á úreltu fyrirkomulagi sem er upptalning réttinda, annars vegar í stjórnarskrá og hins vegar byggir hann líka á tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar, sem þýðir að mannréttindareglur eða -samningar taka ekki gildi gagnvart íslenskum borgurum fyrr en þau eru leidd í íslensk lög. Þetta teljum við ástæðu til að endurskoða og byggjum þar á hugmynd sem Guðmundur Alfreðsson setti fram í afar athyglisverðri grein í afmælisriti Gunnars G. Schram og heitir „Tillaga um mannréttindi í stjórnarskrá“, þar sem hann leggur til að í stað upptalningar réttinda- og frelsisákvæða verði upphafskafli stjórnarskrárinnar stuttur og laggóður og innihaldi aðeins tvær greinar sem feli það m.a. í sér að mannréttindareglur njóti stjórnarskrárverndar þegar þær eru þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir íslenska ríkið samkvæmt staðfestum milliríkjasamningi. Þannig verði það skýrara hvaða reglur gildi þegar um mannréttindi er að ræða, en tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar býður upp á að það er svolítið miklum vafa undirorpið oft á tíðum hvað gildir þegar kemur að mannréttindum sem eru byggð á alþjóðlegum samningum.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tíma á þessum átta stuttu mínútum sem við höfum til að fjalla um þingsályktanir til að fara dýpra ofan í málið en kann að vera að ég kveðji mér hljóðs öðru sinni ef ég tel ástæðu til.